„Ég treysti því að dómarinn hafi tekið rétta ákvörðun“

Laufey Harpa sendir boltann fyrir í leiknum gegn Þór/KA á dögunum. MYND: SIGURÐUR INGI
Laufey Harpa sendir boltann fyrir í leiknum gegn Þór/KA á dögunum. MYND: SIGURÐUR INGI

„Það var góð stemning eftir leikinn enda sýndum við mikinn karakter að koma til baka og jafna leikinn eftir að hafa lent 1-3 undir. Gott og mikilvægt stig sem við tókum með okkur úr leiknum,“ sagði Laufey Harpa Halldórsdóttir, vinstri vængur og spyrnutæknir Tindastólsliðsins í Bestu deildinni, þegar Feykir spurði út í stemninguna að loknu 3-3 jafntefli gegn liði Þórs/KA á dögunum.

Laufey, sem er vinstri bakvörður að upplagi, nýtur sín vel á vinstri kantinum í stöðu sem gefur henni góða möguleika á að taka þátt í sóknarspili Stólastúlkna. Hún hefur verið að spila vel í sumar og þegar komin með nokkrar fínar stoðsendingar í kladdann. Leikurinn gegn Akureyringum var fjörugur en gestirnir leiddu með tveimur mörkum þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Jordyn Rhodes minnkaði þá muninn eftir hornspyrnu frá Laufeyju og á lokamínútu uppbótartíma fékk Laufey boltann í góðu færi og negldi á markið en leikmaður gestanna varði með höndum – dómarinn dæmdi víti og gestirnir voru afar sárir og svekktir með þá ákvörðun. Jordyn jafnaði síðan leikinn úr vítaspyrnunni.

„Mér fannst leikurinn heilt yfir bara nokkuð góður. Liðin skiptust á að halda í boltann og skapa sér færi og auðvitað er alltaf gaman að gefa liðum fjörugan leik,“ sagði Laufey aðspurð um hvað henni hefði fundist um leikinn.

Var þetta ekki allan tímann víti? „Ég treysti því að dómarinn hafi tekið rétta ákvörðun á þessum tímapunkti. Ég átti skot á markið sem var varið á einhvern hátt af leikmanni og við uppskárum vítið í kjölfarið svo ég get allavega ekki kvartað. Jordyn tekur síðan alvöru spyrnu, í slánna og inn og jafnar þá leikinn.“

Finnst þér vera framför í spili Tindastóls? „Við erum alltaf að reyna að þróa og bæta okkar leik og höfum verið að eflast sem lið og náð góðum syrpum. Þegar við náum ekki að halda í okkar gildi hefur það komið niður á úrslitum leikja svo það er mikilvægt að ná að halda góðu striki.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart í Bestu deildinni sumar og eru einhverjir samherjar sem hafa komið þér skemmtilega á óvart? „Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað deildin í ár er gríðarlega jöfn og að það sé stundum ómögulegt að segja til um úrslit leikja. Dagsform liða hefur því mikið að segja og gerir það deildina bara mun skemmtilegri og spennandi. Birgitta og Elísa eru alltaf að koma mér á óvart og eiga hrós skilið fyrir frammistöður sínar í sumar. Svo má ekki gleyma að Jordyn er sem stendur næst markahæst í deildinni og hefur vaxið mikið síðan hún kom í vetur.“

Hvernig leggst framhaldið í þig? „Framhaldið leggst vel í mig. Við eigum krefjandi leiki eftir og það skiptir máli að við komum vel stemmdar til leiks og vona ég að fólk fjölmenni á völlinn og styðji okkur áfram,“ segir Laufey að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir