„Ég segi topp sex, annað væri vonbrigði!“
„Sumarið leggst mjög vel í mig, við erum komnir með mjög sterka leikmenn til liðs við okkur en það mun taka tíma að spila okkur saman. Við þurfum að treysta á einstaklingsgæði í fyrstu leikjunum,“ segir Sigurður Bjarni Aadnegard, fyrirliði Kormáks/Hvatar. Húnvetningar hefja leik í 3. deildinni í knattspyrnu annað sumarið í röð í dag þegar þeir mæta liði ÍH í Skessunni í Hafnarfirði. Tólf lið munu slást í deildinni í sumar og á dögunum birti Fótbolti.net spá þjálfara deildarinnar og þar var liði Húnvetninga spáð níunda sæti.
Það má segja að undirbúningur Kormáks/Hvatar sé óhefðbundinn miðað við önnur lið. Leikmenn mæta seint til æfinga enda talsvert um erlenda leikmenn í hópnum sem skila sér til landsins þegar veturinn er að mestu liðinn og liðið tekur því ekki þátt í Lengjubikar eða Kjarnafæðismótinu líkt og flest önnur lið hér fyrir norðan. Það liggur því beint við að spyrja fyrirliðinn hvort liðið komi vel undirbúið til leiks og hvort það hafi náð að spila einhverja æfingaleiki. „Liðið kemur þokklega til leiks en það vantar slatta í hópinn, menn meiddir og fjarverandi. Við höfum verið að spila æfingaleiki i bænum allar helgar og unnið alla þá leiki. Síðan tókum við tvo leiki við Tindastól og vorum með það markmið að byggja Tindastóllsliðið upp fyrir sumarið og kenna þeim þessa sigurhefð sem hefur vantað þar síðustu tvo ár,“ segir fyrirliðinn léttur.
Þjálfarar spá Kormáki/Hvöt níunda sæti, hver er þín spá? „Eg spái okkur góðu gengi, þurfum að reyna að harka út einhver stig í maí. Ég segi topp sex, annað væri vonbrigði.“
Hver heldurðu að munurinn verði á 3. deildinni í ár miðað við síðasta sumar? Ég held að munurinn verði ekki mikill. Deildin verður liklega skipt tvískipt, sex mjög góð lið sem eiga séns á efstu tveimur sætunum og svo sex lið sem verða þarna i neðri hlutanum.“
Eru komnir nýir og spennandi leikmenn sem verður gaman að fylgjast með í sumar? „Við höfum fengið mjög mikið af spennandi leikmönnum, erum með svipað lið og í fyrra en bættum við okkur Ismael,Alberto og Lazar sem eru gæðaleikmenn. Síðan myndi ég fylgjast vel með Kristni Bjarna og Orra Ara sem munu setja svip sinn á liðið í sumar.“
Einhver skilaboð til stuðningsmanna í lokin? „Elskaðir, hataðir en aldrei hunsaðir. Ást og friður!“
Í spjalli Fótbolta.net við Aco Pandurevic, þjálfara Kormáks/Hvatar, segist hann reikna með að 3. deildin verði ekki jafn sterk í sumar og í fyrra og bendir á að þrjú lið hafi komið upp í deildina úr þeirri fjórðu fyrir tímabilið. „ Það er erfitt að spá en kannski geta spár haft góð áhrif á liðin sem er ekki spá svo góðu gengi. Kormákur/Hvöt er með góða leikmenn, en við erum svolítið eftir á í samanburði við hin liðin vegna þess að æfingaaðstæður eru ekki góðar og við erum enn að safna liðinu en á heildina litið er ég mjög spenntur að við séum að byrja tímabilið."
Í dag mæta Húnvetningar liði ÍH sem spáð var 11. sæti og það væri sterkt að ná í stig. Leikurinn er sem fyrr segir spilaður í Skessunni í Hafnarfirði og hefst kl, 14:00. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.