„Ég hef aldrei verið jafn stressaður á ævi minni“
Feykir heldur áfram að athuga með heilsu og ástand stuðningsmanna og leikmanna Tindastóls eftir stóra sigurinn á Hlíðarenda. Einn frægasti Króksarinn er væntanlega Auðunn Blöndal og það mátti sjá hann angistarfullan í fremstu röð á Hlíðarenda og í Síkinu í einvígi Vals og Tindastóls. Það leit ekki út fyrir að hann hefði náð að spennujafna fyrir úrslitaleikinn og því rétt að tékka á honum.
Hvernig var að vakna í morgun sem Íslandsmeistari, hvað þýðir titillinn fyrir þig? „Maður er ennþá að átta sig á þessu! Þetta er búið að vera svo margir leikir og mikið stress. Og þessi titill þýðir allt fyrir okkur Skagfirðinga. Maður er búinn að bíða eftir þessu síðan maður var 11 ára að berja á trommurnar í Síkinu með Ísaki Einars kolvitlaus!“
Geturðu lýst gærkvöldinu? „Eiginlega ekki. Man að ég datt út þegar leikurinn kláraðist. Hljóp samt inn á völlinn að faðma alla og vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér.“
Hvað er eftirminnilegast úr leiknum? „Að fara úr því að halda að þetta sé að fara frá okkur enn eitt árið í að fatta að við séum að fara vinna þetta!“
Varstu stressaður, þurftirðu að fórna einhverju fyrir úrslitaleikinn? „Ég hef aldrei verið jafn stressaður á ævi minni. Maður fórnaði aðeins heilsunni bara.“
Einhver skilaboð til Tindastólsmanna? „Ég dýrka ykkur öll. Það er á svona stundum sem maður fattar hvað Skagafjörðurinn er langbestur ásamt fólkinu sem býr þar og hefur búið þar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.