Ég elska þetta
Karlalið Tindastóls í fótboltanum lyfti sér loks upp um deild þegar liðið lagði Árborg í toppslag 4. deildar og tryggði sér sæti í 3. deild að ári. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir þjálfara liðsins, Dominic Furness. Mörgum hefur þótt hryggilegt að Stólarnir hafi verið þetta neðarlega í karlafótboltanum en ferill liðsins síðustu áratugina hefur verið rússíbanareið. Liðið hefur aldrei komist í efstu deild en á bestu tímabilum hafa strákarnir verið í næstefstu deild og svo flakkað talsvert þar fyrir neðan. Það er í það minnsta ljóst að Tindastólsfólki finnst ekki að liðið eigi heima í neðstu deildunum.
Síðast þegar Tindastólsliðið var í næstefstu deild var Donni Sigurðsson að þjálfa og helstu stjörnur liðsins voru þeir Furness-bræður; Theo, Seb og Dom en sá síðastnefndi tók við þjálfun Tindastóls í fyrra og hefur nú komið liðinu upp um deild. Hann hefur einnig verið að spila með liðinu, enda hörkuspilari sem lék meðal annars í efstu deild á Íslandi, og það fór vel á því að hann skoraði sigurmarkið gegn Árborg og gerði þannig markið sem gulltryggði sætið í 3. deild.
Hvað finnst þér hafa staðið upp úr í sumar hjá liði Tindastóls? „Hugarfar hópsins; vinnuandinn og skuldbindingin. Þegar þetta tvennt kemur saman ertu kominn með þann grunn og þá trú sem þarf til að vinna fótboltaleiki og verða meistarar.“
Var stefnan allan tímann að komast upp í 3. deild, trúðir þú frá fyrstu stundu að það takmark næðist? „Markmið okkar er alltaf að vinna alla leiki sem við spilum. Hópurinn kom seint saman í samanburði við önnur lið en ég vissi að við myndum eiga möguleika á árangri eftir fyrsta leik tímabilsins. Við spiluðum frábæran fótbolta, stjórnuðum leiknum nákvæmlega eins og við ætluðum okkur, ollum andstæðingnum vandræðum, sköpuðum mörg marktækifæri og síðast en ekki síst þá náðum við að höndla erfið augnablik í leiknum. Þegar ég lagði allt þetta saman sá ég að við myndum eiga möguleika.“
Var einhver vendipunktur í sumar þar sem þér fannst þú vera með lið sem gæti farið alla leið? „Í sjálfu sér ekki, þetta var ferðalag skilnings, lærdóms og ferils þar sem við vorum að bæta okkar leik. Sem gerði okkur kleift að lagfæra þessa litlu hluti á leiðinni og gaf okkur stöðugan vöxt sem við þurftum til að ná árangri.“
Er gaman að þjálfa fótboltalið – hefur þjálfari fótboltaliðs tíma fyrir eitthvað annað en fótbolta? „Ég elska þetta; þetta er 24/7 verkefni, þetta er ástríða, þráhyggja, það er ekki hægt að slökkva á þessu. En ég hugsa fyrir sjálfan mig persónulega, þá verður þetta að vera þannig, þannig er ég tengdur, það er ekkert annað sem heltekur huga minn eins og strákarnir og fótboltinn. Ég myndi segja að tíminn með konunni minni – að fá sér kaffi í bakaríinu og eiga gott spjall, þessir einföldu hlutir – veita mér þá hvíld sem ég þarf, halda mér ferskum, þannig að ég geti viðhaldið orkunni og einbeitingu.“
Þú hefur komið að þjálfun yngri flokka Tindastóls, hvað er mikilvægast í þjálfun? „Ánægja, ástríðu og skemmtun. Ég hef verið að vinna með strákunum í 4. flokki á þessu ári og það hefur verið algjörlega yndislegt. Þetta, fyrir mér, er fótbolti eins og hann er í sinni tærustu mynd; hópur sem elskar fótbolta, mætir alltaf fullur af orku og spennu, vill bæta sig og læra. Hópur sem er einstaklega samkeppnishæfur innbyrðis – það er mikilvægt – strákarnir ýta hver öðrum til sigurs á hverjum degi, gefa allt á æfingum. Ef þeir halda áfram á þessari braut, með þessu hugarfari og viðhorfi, þá veit ég að þeir sem gera það munu ná miklum árangri í lífinu og í fótboltanum.“
Eruð þið konan þín sátt við lífið á Króknum, gætirðu hugsað þér að vera áfram þjálfari Tindastóls? „Við njótum bæði þess hve líf okkar er einfalt hérna. Janeth hefur verið að vinna á leikskóla í meira en ár núna og er eins og stjarna hjá krökkunum þegar hún fer í bæinn, allir brosa, veifa og heilsa! Henni þykir mjög vænt um krakkana. Samningur minn rennur út í lok tímabilsins og því munum við ræða við félagið um framtíðina á næstu dögum. Vonandi gengur allt vel því ég veit að þetta gæti verið bara byrjunin á frábæru nýju tímabili fyrir karlafótboltann hjá Tindastóli. Við höfum tekið nokkur ótrúleg skref á undanförnum tveimur tímabilum og eigum eftir að bæta við mörgum í viðbót!“
Síðasti leikur tímabilsins hjá Stólunum fer fram á morgun, laugardaginn 7. september og hefst kl. 14:00 – eða á sama tíma og Stólastúlkur mæta lið Fylkis á Króknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.