Dýsætur sigurleikur gegn KV

Tindastóll tók á móti liði KV í 2. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi á Sauðárkróksvelli. Bæði liðin hafa verið að dúlla neðarlega í deildinni og leikurinn því afar mikilvægur báðum liðum. Úr varð hörkuleikur þar sem ekkert var gefið eftir en á endanum voru það Stólarnir sem fögnuðu ynnilega sætum sigri, 2-1, og sitja nú í sjöunda sæti.

Leikur liðanna var jafn og spennandi en það voru Stólarnir sem sköpuðu sér betri færi. Það besta kom eftir um 10. mínútna leik þegar Fannar Gísla skaut yfir þegar auðveldara virtist að skora, en það er ekki alltaf tekið út með sældinni að komast í dauðafæri. Eftir þetta komust gestirnir betur inn í leikinn og fengu ágætt færi sem Hlynur varði vel í marki Tindastóls. Bjarki Árna komst tvisvar í skallafæri eftir hornspyrnur en náði ekki að koma boltanum á markið og Fannar Gísla setti boltann í stöngina í þröngu færi. 0-0 í hálfleik.

Stólarnir komu sprækir inn í síðari hálfleik, voru duglegir en héldu skipulaginu vel og gáfu fá færi á sér. Haukur Eyþórsson, nýr leikmaður sem skipti úr Hvíta riddaranum nú á dögunum,  var baráttuglaður og ógnaði með hraða sínum og vilja. Fyrsta mark leiksins gerði Páll Sindri fyrir Tindastól á 59. mínútu eftir góða baráttu Stólanna upp við teig gestanna. Hann vann boltann á vítateigslínunni, komst í gott færi og setti boltann í hornið fjær. Stólarnir efldust við þetta og uppskáru annað mark á 73, mínútu þegar Haukur elti hálf vonlausan bolta upp völlinn. Hann tók á mikinn sprett og náði að komast í boltann á undan Atla Jónassyni markmanni KV og setja boltann yfir hann í háum boga. Boltinn datt niður rétt framan við marklínuna og skoppaði rétt inn í markið áður en varnarmenn KV hreinsuðu. 2-0. Stólarnir reyndu nú að hægja á leiknum en gerðu sig seka um slæm mistök á 81. mínútu eftir aukaspyrnu KV, afleit hreinsun varnarmanns endaði hjá Einari Má Þórissyni sem skilaði boltanum af öryggi í netið. Talsverður hasar og hiti færðist í leikinn í kjölfarið og gestirnir gerðu sig líklega til að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki – eins og Gaupi segir. Lokatölur 2-1.

Allt lið Tindastóls stóð fyrir sínu og sannkallaður liðssigur staðreynd. Páll Sindri átti fínan leik á miðjunni, spilaði boltanum vel og gat tekið menn á ef þurfti. Þá var Haukur sprækur frammi og ætti að færa Stólunum þá grimmd (og vonandi mörk) sem skort hefur í sumar. Vörnin stóð sína vakt og gestirnir fengu fá færi úr að moða.

Þrátt fyrir sigurinn og sæti um miðja deild eru Stólarnir langt frá því að vera öruggir með sæti í deildinni og ljóst að barist verður fram á ögurstundu. Stólarnir eru í sjöunda sæti með 16 stig en liðið í ellefta sæti, Ægir Þorlákshöfn, er með 14 stig og því ljóst að menn mega ekki misstíga sig í næstu umferðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir