Draumaleikur Stólanna
Njarðvíkingar mættu til leiks í Síkinu í kvöld í Dominos-deildinni í körfubolta og fengu óbliðar móttökur frá Tindastólsmönnum sem hreinlega kjöldrógu gestina fyrstu þrjá fjórðungana. Hver og einn einasti leikmaður Tindastóls var með sitt hlutverk á hreinu í kvöld en enginn skilaði sínu betur en Björgvin Hafþór sem hlýtur að hafa átt leik lífs síns. Það hreinlega gekk allt upp hjá kappanum. Staðan í hálfleik var 51-28 en lokatölur 100-72.
Tindastólsliðið rauk upp úr startholunum og það var ekki ónýtt að sjá Helga Rafn stela boltanum snemma leiks og troða í körfu Njarðvíkinga, staðan 8-0. Stólarnir gerðu reyndar fyrst 12 stigin. Pétur og Samb voru atkvæðamestir í sókninni framan af leik og Njarðvíkingar hreinlega sáu varla körfuna í fyrsta leikhluta. Staðan að honum loknum var 25-9.
Þriggja stiga karfa frá Pape Seck snemma í öðrum leikhluta breytti stöðunni í 30-9 en næstu sjö stig voru gestanna. Stólarnir létu það ekki á sig fá og tóku öll völd á vellinum. Um miðjan leikhlutann fékk einn dómara leiksins vænt höfuðhögg eftir að Corbin Jackson hrökk á hann eftir klafs undir körfu Tindastóls. Varð Halldór dómari Jensson að hætta leik þannig að Leifur Garðars og Davíð Hreiðars kláruðu leikinn tveir. Samb fór nú á miklum kostum og Hannes átti góða innkomu og setti niður tvo þrista á skömmum tíma. Staðan í hálfleik 51-28.
Yfirburðir heimamanna voru sömuleiðis miklir í þriðja leikhluta og um miðjan leikhlutann var staðan hreinlega vandræðaleg fyrir Njarðvíkurliðið. Chris Caird hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en nú hrökk hann í gang. Eftir fimm stig frá Svabba á 15 sekúndna kafla og tvær skrímslatroðslur frá Björgvini í kjölfarið var staðan orðin 77-35! Þá loksins kviknaði aðeins á snillingnum Stefan Bonneau en Stólarnir höfðu spilað frábæra vörn á hann fram að því. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 79-43 eða 36 stiga munur.
Heldur dró af Stólunum í fjórða leikhluta – nema þegar Björgvin var inná, þá var bara allt á útopnu og drengurinn þeyttist um Síkið langt yfir löglegum hámarkshraða. Eftir nokkrar misheppnaðar sóknir hjá Stólunum náðu nokkrir minni spámanna Njarðvíkurliðsins að sulla niður þristum og minnstur varð munurinn á liðunum 23 stig þegar þrjár og hálf mínúta lifði leiks. Þá tók Björgvin 3ja stiga skot og eins og flest annað hjá kappanum þá rataði það í körfuna. Á lokasekúndunuum gerði hann síðan síðustu körfu Stólanna, var með boltann fyrir utan en spratt síðan af stað og tróð í fjórða eða fimmta (hver er að telja?) skiptið í leiknum með tilþrifum, og kom Stólunum í 100 stigin.
Lið Tindastóls var ómótstæðilegt og óaðfinnanlegt í kvöld og stuðningsmenn liðsins kvöddu Síkið með stjörnur í augum og sennilega dreyma einhverjir stóra drauma í nótt.
Sem fyrr segir átti Björgvin stjörnuleik sem skilaði honum 40 framlagspunktum; hann gerði 24 stig (11/13), tók níu fráköst, átti fimm stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum. Mamadou Samb var þó stigahæstur og átti sömuleiðis fínan leik með 29 stig og 13 fráköst og leit bara ansi vel út þrátt fyrir að hafa fengið á sig nokkra óþarfa skrefadóma. Njarðvíkingar einbeittu sér að því að loka á Pétur sem bar boltann þó upp af fagmennsku og endaði leikinn með níu stig og átta stoðsendingar. Sem fyrr segir þá spiluðu allir vel hjá Stólunum í kvöld og ef það er rétt sem Costa segir, að Stólarnir muni styrkjast með hverri vikunni, ja þá er von á góðu.
Njarðvíkingar vilja sennilega gleyma þessari kvöl og pínu í Síkinu sem fyrst. Það er hreinlega staðreynd að þeir sáu ekki á körfuna stóran hluta leiksins. Á meðan Stólarnir áttu 86 skot áttu Njarðvíkingar 63! Og á meðan Stólarnir tóku 52 fráköst tóku gestirnir 28. Þetta voru fáheyrðir yfirburðir. Stigahæstir gestanna voru Bonneau og Jackson með 15 stig hvor.
Stig Tindastóls: Samb 29m Björgvin 24, Caird 11, Pétur 9, Seck 7, Hannes 6, Helgi Rafn 6, Svavar 5 og Finnbogi 3.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.