Dómarinn bað Donna afsökunar eftir 3-1 tap Tindastóls

Murielle í baráttunni í gærkvöldi Mynd: mbl.is/Óttar Geirsson
Murielle í baráttunni í gærkvöldi Mynd: mbl.is/Óttar Geirsson

Tindastóll gerði sér ferð á suðurlandið í gær þegar þær sóttu lið Selfoss heim í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna. Leiknum lauk með 3-1 sigri heimamanna.

Leikurinn hófst rólega en til tíðinda dró á 13. mínútu þegar að Laufey Harpa tók hornspyrnu fyrir Stólana. Melissa Alison Garcia var þá á réttum stað inni á markteig og skoraði af stuttu færi með skalla.

Leikmaður Selfoss, Katla María Þórðardóttir var stálheppinn á 24. mínútu þegar hún slapp við rautt spjald eftir glannalega tæklingu á Hönnuh Jane Cade út við hliðarlínu.

Í síðari hluta fyrri hálfleiks jókst sóknarþungi Selfyssinga og 36. mínútu átti áður nefnd Katla María lúmska fyrirgjöf inn á teig Tindastóls sem á undarlegan hátt endaði niðri í fjærhorninu og Selfoss komið yfir. Heimakonur komust síðan yfir stuttu síðar þegar Eva Lind Elíasdóttir skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf.

Heimaliðið fékk óbeina aukaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks þegar að dómari leiksins taldi markvörð Stólana hafa tekið boltann upp eftir sendingu frá Maríu Dögg en það virtust allir á vellinum taka eftir því að boltinn hafði viðkomu í sóknarmanni Selfoss. Þetta reyndist dýrkeypt fyrir Tindastól því að Selfoss skoraði úr óbeinu spyrnunni og var þar á ferðinni enn á ný, Katla María.

Donni þjálfari Tindastóls hafði lítinn húmor fyrir þessu atviki og  sagði við blaðamann mbl.is að það hefðu allir á vellinum heyrt þegar að boltinn fór í leikmann Selfoss.
,,Bekk­ur­inn hjá Sel­fossi fór bara að hlæja þegar hann dæmdi. Dóm­ar­inn baðst af­sök­un­ar eft­ir leik en þetta eyðilagði mómentið fyr­ir okk­ur, við byrjuðum seinni hálfleik­inn vel en þriðja mark Sel­foss var al­gjört lyk­il­atriði í leikn­um.‘‘

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og annað tap Tindastóls í deildinni því staðreynd. Stelpurnar sitja á botni deildarinnar með tvö stig eftir fjóra leiki og eiga næst leik heimaleik gegn Stjörnunni næstkomandi þriðjudag.

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir