Brjáluð stemning og svaka fjör í Amsterdam
Það er varla nema eitt umræðuefni á Klakanum í dag en það er leikur Hollands og Íslands í undankeppni EM sem fram fer í Amsterdam í kvöld. Mikill spenningur er fyrir leiknum og nokkur þúsund Íslendinga mættir á svæðið.
Það er gaman að segja frá því að skagfirskar fótboltabullur prýddu forsíðu Moggans í morgun en það voru einmitt eiginmaður Stínu blaðamanns á Feyki, Alfreð Símonarson frá Barði í Fljótum og synir þeirra; Jóhannes, Einar (festist ekki á myndinni) og Símon. Reyndar ekki sanngjarnt að kalla þá fótboltabullur því þeir feðgar eru sjaldséðir gestir á vellinum. „Það er brjáluð stemning og svaka fjör,“ segja feðgarnir fjallbrattir.
Stuðningsmannalið Íslands, Tólfan, hvar Dýllarinn Styrmir Króksari Gíslason var lengi fyrirliði, er búin að hita upp fyrir leikinn síðustu daga og látið til sín taka bæði hér heima og í Kaupmannahöfn og nú hafa Íslendingarnir hertekið Dam-torgið í Amsterdam þar sem þeir syngja og skemmta sér. Talið er að tæplega 1% Íslendinga verði á vellinum – eða vel á þriðja þúsund bláliðar – og ef kíkt er á samfélagsmiðlana þá er þar fullt af myndum af fjörlegum Frónbúum sem hafa skellt sér í víking til Niðurlanda.
Þeir sem leggja ekki í að horfa á leikinn heima hjá sér hér á Krók geta kíkt á Ólafshús og jafnvel víðar. Íslendingar eru alla jafna bjartsýnir fyrir leikinn og nú er bara að krossa fingur og vona að íslenska landsliðið eigi fínan leik og íslenskir stuðningsmenn geti lagst sáttir á koddann að leik loknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.