Baldur og Aðalsteinn mæta grimmir til leiks
Dagana 27. - 29. ágúst fer fram þriðja keppni ársins í Íslandsmeistaramótinu í rallý, Rally Reykjavík. Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur, sem sér um framkvæmd keppninnar, hefur staðið fyrir alþjóðlegri keppni allt frá 1979 og er þetta því sú 37. í röðinni. Þessi keppni er ár hvert sú stærsta og erfiðasta á tímabili rallökumanna og eru í ár eknir rúmlega 1.000 km á tæpum tveimur sólarhringum, þ.a. um 300 á sérleiðum.
Keppnin hefur ávallt laðað til sín nokkurn fjölda erlendra þátttakenda og hafa þeir aldrei verið fleiri en í ár eða 10 áhafnir af í allt 22. Flestar aka þær jeppum, nánar tiltekið Land Rover, sem hafa verið útbúnir sérstaklega til þátttöku í rallý, og eru nokkrir þeirra feikilega öflugir eða hátt í 300 hestöfl.
Hefst keppnin við Perluna klukkan 16:00 á fimmtudag og endar klukkan 14:15 á laugardag á sama stað. Verður ekið víða, m.a. í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, farið suður á land að Heklurótum og á laugardaginn verður m.a. ekið í Borgarfirði þegar farið verður um Tröllháls og Kaldadal. Báðar leiðir eru skemmtilegar fyrir áhorfendur til að fylgjast með keppninni.
Þeir Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson hafa yfirfarið bifreið sína eftir hrakfarir í síðustu keppni. Munu þeir mæta grimmir til leiks, tilbúnir í slaginn á móti áhöfnum eins og Valdimari Jóni Sveinssyni og Skapta Skúlasyni sem leiða íslandsmótið, Daníel og Ástu Sigurðarbörnum og Íslandsmeisturum 2013 þeim Henning Ólafssyni og Árna Gunnlaugssyni.
Hægt verður að fylgjast með framvindu keppninnar á www.tryggvi.org/rallytimes
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.