Arnar með landsliðinu í undankeppni HM

Kúrekinn verður vonandi ekki rólegur í kvöld – bara svalur. MYND: DAVÍÐ MÁR
Kúrekinn verður vonandi ekki rólegur í kvöld – bara svalur. MYND: DAVÍÐ MÁR

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik leikur tvo landsleiki í landsliðsglugganum sem nú er hafinn í undankeppni HM 2023. Liðið hefur æft saman síðustu daga og í kvöld, 11. nóvember, mæta strákarnir landsliði Georgíu í Laugardalshöllina. Leikurinn hefst kl. 19:30 og verður í beinni á RÚV en uppselt er á leikinn. Einn leikmaður Tindastóls, Arnar Björnsson, var valinn í landsliðshóp Íslands og fær vonandi að láta ljós sitt skína.

Seinni leikurinn fer fram ytra mánudaginn 14. nóvember en þá mætir Ísland liði Úkraínu og verður leikið í Riga í Lettlandi. Leikurinn hefst kl. 14:00 að íslenskum tíma (16:00 í Lettlandi) og verður sömuleiðis í beinni útsendingu á RÚV.

Leikirnir eru mikilvægir upp á framhaldið en Ísland getur styrkt stöðu sína gríðarlega í keppninni með góðum úrslitum og mögulega tryggt sér sæti á HM í fyrsta sinn. Báðir andstæðingar Íslands eru fyrnasterkir og léku í haust á lokamóti EM, EuroBasket 2022, þar sem þau fóru í 16-liða úrslit.

Í nýjasta Stólnum, kynningarblaði körfuknattleiksdeildar Tindastóls sem verður dreift í næstu viku, er einmitt spjallað við Arnar og hann m.a. spurður út í möguleika Íslands að komast á HM og hvort spenna sé í hópnum. „Við höfum aldrei verið nær því að komast á HM og spennan er því mikil. En við verðum að fókusa á einn leik í einu og sjá svo hvar við stöndum eftir þessa fjóra leiki sem eftir eru. Það er alltaf gaman að taka þátt í landsliðsverkefnum en það er einstaklega gaman núna þegar það er svona mikið undir,“ segir Arnar.

Áfram Ísland!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir