Allir geta verið stoltir af liði Tindastóls, segir Donni
Feykir spurði Donna, þjálfari Stólastúlkna, hvort hann væri stoltur af liðinu sínu eftir mikilvægan sigur á Fylki. „Ég er í skýjunum með frammistöðuna í dag þegar allt var undir. Stelpurnar stóðust pressuna alveg eins og ég vissi að þær gætu gert. Þær gerðu það sama í fyrra og í raun hefðu mörkin í dag getað verið jafn mörg og þá,“ sagði hann og vísaði í 7-3 sigur á ÍBV í fyrra við svipaðar kringumstæður.
Hann segir Stólastúlkur hafa verið staðráðnar frá fyrstu mínútu í að sýna hvað í þeim býr og þær hafi gefið allt í leikinn. Og uppskáru 3-0 sigur og áframhaldandi sæti í Bestu deildinni.
Var þetta betra en í villtustu draumum þjálfarateymisins? „Úrslitin voru klárlega í samræmi við okkar vonir og væntingar en vissulega get ég sagt að við bjuggumst kannski ekki við þessum miklu yfirburðum.“
Þetta er annað árið sem Stólastúlkur taka þátt í úrslitakeppni neðri liða og liðið virðist alltaf klárt í slaginn og standa undir pressunni. Geturðu útskýrt þetta? „Margar af leikmönnunum eru búnar að spila lengi saman og upplifa marga stóra leiki. Þær eru gríðarlega miklir karakterar allar saman og blandan er alveg stórgóð. Allar þekkja sín hlutverk innan liðsins og skila sínu vel. Vissulega er þjálfarateymið reynslumikið og getur hjálpað eitthvað en leikmennirnir eru þeir sem spila leikinn og þær eiga allt hrós skilið fyrir hvernig þær eiga við þessa leiki.“
Þegar keppni hófst í sumar fannst sennilega einhverjum hópurinn þunnskipaður og þjálfarinn djarfur að vera með tvær 16 ára stúlkur sem byrjunarliðsmenn frá fyrsta leik. Er árangur sumarsins betri en þú bjóst sjálfur við? „Hópurinn var frekar stór þegar mótið byrjaði en við lentum aðeins í skakkaföllum í byrjun og þynntist aðeins. Við ætluðum okkur aðeins meira en neðra umspilið ef ég er hreinskilin. Sumarið er þó alls ekki vonbrigði og þvert á móti bara stórkostlegt miðað við allt og allt. Við höfum alltaf haft trú á liðinu okkar og öllum leikmönnum. Og mér fannst við klárlega hafa oft átt meira skilið úr leikjum sem hafa tapast. Svo möguleikinn að gera enn betur var klárlega fyrir hendi miðað við spilamennsku og frammistöðu liðsins. Þessar yngri spiluðu í yfir tíu leikjum í deildinni í fyrra og sprungu út í ár svo sannarlega auk þess sem önnur á sama aldri, hún Saga, spilaði núna í yfir tíu leikjum og gæti sprungið enn meira út á næsta ári eða árum. Framtíðin er þeirra og klárlega fleiri stelpur í svipaðri stöðu. Síðan fannst mér bara mjög margir leikmenn eiga frábært sumar og ég sé miklar bætingar á heildarbrag í leik liðsins. Margar úr okkar íslenska kjarna eru orðnar mjög reynslumiklar og áttu geggjað sumar.“
Hverjar voru helstu áskoranir sumarsins? „Við auðvitað missum Gwen sem var risastórt fyrir okkur. Hún var klárlega einn besti leikmaður liðsins og leiðtogi. Það var mikil áskorun að fylla hennar skarð og mér fannst það síðan leysast nokkuð vel með tilkomu Elise. Við þurftum nokkrum sinnum að breyta áherslum í leikaðferð og það er alltaf ákveðin áhætta fólgin í þvi og getur tekið tíma. Það er auðvitað stór áskorun á þjálfarateymi og leikmannahóp að takast á við marga leiki í röð án sigurs og oft þegar okkur fannst við eiga meira skilið. Það tekur á andlega og þá reynir á liðsheildina. Sem mér fannst leysast mjög vel og liðsheildin er mjög sterk hjá okkur og góð stemning.“
Donni segist vera ótrúlega stoltur af leikmönnum, stjórn, sjukraþjálfurum, þjálfarateymi, stuðningsmönnum og þakklátur öllum styrktaraðilum fyrir sína hjálp. „Við erum einstakt lítið félag og að eiga svona sterkt úrvalsdeildarlið sem elur upp sína eigin leikmenn og er með næst flesta heimamenn í sínu liði í deildinni er algerlega magnað afrek. Við erum að standast öllum bestu fèlögum landsins snúning og gott betur en það í mörgum tilfellum. Við búum ekki þannig að það sé auðvelt að fá leikmenn úr öðrum félögum eins og öll önnur lið svo við neyðumst til að ala upp okkar eigin og fá erlendar styrkingar. Tindastóll hefur í gegnum tíðina gert það stórkostlega og við getum öll verið ótrúlega stolt af því. Þó er það staðreynd að við erum með slökustu aðstöðuna í kringum liðið og lang minnsta fjármagnið. Þá erum við samt að fara inn í þriðja tímabilið í röð á næsta ári í efstu deild sem er eftirtektaverður árangur hjá öllum þeim sem koma að og allir geta verið stoltir af,“ segir Donni að lokum.
Stólastúlkur eiga eftir einn leik í úrslitakeppninni, mæta Stjörnunni í Garðabæ. Að öllum líkindum lendir liðið í áttunda sæti deildarinnar, þar sem því var spáð af þjálfurum og fyrirliðum Bestu deildarinnar fyrir mót. Vinni Tindastóll lið Stjörnunnar með þremur eða fleiri mörkum þá hafa þær sætaskipti við Garðbæinga, næla í sjöunda sætið. Ætlar einhver að veðja á móti Stólastúlkum?!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.