Alberto Sanchez Montilla bætist í leikmannahóp Kormáks Hvatar
„Genginn er til liðs við Kormák Hvöt Alberto Sanchez Montilla, 27 ára örvfættur miðvörður frá Andalúsíu-héraði á Spáni,“ segir á aðdáendasíðu Kormáks í fótboltanum. Þar kemur fram að Alberto sé fjall af manni og einmitt það sem liðið hafi vantað í hina hörðu baráttu 3. deildar sem er framundan.
„Í heildina telur hann 193 sentímetra upp í loft og ætti því að veita bleikliðum góðan liðsstyrk í föstum leikatriðum á báðum endum vallarins í sumar. Alberto er góður með bolta í fótum, þykir harður í horn að taka og á það til að skora eitt og eitt mark. Þá er hann leiðtogi á velli og baráttuhundur mikill samkvæmt heimildamönnum okkar ytra,“ segir aðdáendasíðan sem getur ekki beðið eftir því að sjá þetta eintak á vellinum í sumar og sama má segja um Feyki. Spenningurinn eykst með degi hverjum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.