Austlendingar höfðu betur gegn Húnvetningum

Það var leikið í 2. deildinni í dag en þá héldu Húnvetningar austur í Fellabæ þar sem lið Hattar/Hugins beið þeirra. Austlendingar voru sæti ofar en lið Kormáks&Hvatar fyrir leik og því hefði verið gott að krækja í sigur en það gekk ekki eftir. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Aðdáendasíðunnar var því hér annar leikurinn í röð sem lið Húnvetninga uppskera ekki svo sem þeir sá og lokatölur 3-1.

Heimamenn voru sterkari framan af leik og náðu forystunni á 11. mínútu eftir að gestirnir höfðu misst boltann á vondum stað.. Þar var Martim Cardoso á ferðinni. Smám saman komust Húnvetningar betur inn í leikinn og ekki ósanngjarnt þegar Papa jafnaði á 40. mínútu. Ekki hefði verið ósanngjarnt að Húnvetningar hefðu fengið víti skömmu fyrir hlé en ekki var það gefið.

Gestirnir voru áfram sterkari framan af seinni hálfleik en næsta mark leit ekki dagsins ljós fyrr en stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá slæsaði Acai boltann í teignum og í eigið mark ansi slysalega. Eftir þetta reyndu heimamenn að draga úr hraðanum en þeir bættu við þriðja marki sínu á annari mínútu uppbótartíma en markið gerði Heiðar Jónsson eftir að boltinn hafði hrokkið af varnarmanni Kormáks/Hvatar í teignum.

Lið Húnvetninga situr áfram í áttunda sæti í tólf liða deild og er með fjögur stig. Næsti leikur verður spilaður á Blönduósvelli eftir viku en þá kemur lið KFG norður. Garðbæingar eru í ellefta sæti með þrjú stig og leikurinn því mikilvægur ætli Húnvetningar að þoka sér upp úr botnbaráttu 2. deildar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir