Ægir Björn og Alex Daði komu, sáu og sigruðu
Reykjarvíkurleikarnir standa nú yfir og þar er m.a. keppt í CrossFit. Þrjú lið mættu til leiks í liðakeppni kvenna- og karla í dag og þar var einn Króksari meðal keppanda, Ægir Björn Gunnsteinsson, sem keppti í félagi við Alex Daða Reynisson. Hörð keppni var hjá báðum kynjum en svo fór að lokum að Ægir Björn og Alex Daði sigruðu í karlaflokki en Annie Mist og Bergrós Björnsdóttir í kvennaflokki.
Ægir Björn og Alex Daði voru þriðja sterkasta liðið þegar mótið hófst og kom því skemmtilega á óvart að þeir næðu í sigurinn. Þar skipti frammistaðan í erfiðustu greininni, hringjunum, mestu máli og kom það þeim félögum á óvart hversu vel gekk með þá. Í samtali við íþróttadeild RÚV sagði Ægir Björn að það hefði verið ljúft að vinna sig upp í fyrsta sætið úr því þriðja, þeir hafi ekki haft miklar væntingar fyrir mótið þar sem þeir höfðu verið talsvert á eftir keppinautunum í undankeppni mótsins sem fór fram um síðustu helgi.
Bjarni Leifs Kjartansson og Eggert Ólafsson urðu í öðru sæti og Rúnar Kristinsson og Þorri Pétur Þorláksson í þriðja sæti. Keppt er í þremur greinum á mótinu. Þess má geta að Ægir Björn æfir og þjálfar iðkendur hjá CrossFit550 á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.