Ægir Björn í 3. sæti á The European Championship 2023 í Bretlandi
Dagana 25. og 26. nóvember fór fram The European Championships 2023 í Bretlandi en sex einstaklingar frá Norðurlandi komust inn á mótið og voru þau, að þessu sinni, einu Íslendingarnir sem kepptu í ár en margir af þekktari Crossfitturum landsins hafa tekið þátt í þessari keppni og náð mjög góðum árangri.
Ægir Björn Gunnsteinsson, okkar fremsti Crossfit iðkandi á svæðinu, sem þjálfar í Crossfit stöðinni á Sauðárkróki, fór á mótið ásamt góðu keppnisföruneyti, þeim Birki Erni Kristjánssyni, Viktori Jóhannesi Kristóferssyni, Daða Hlífarssyni, Arnari Bjarka Kristjánssyni og Þórunni Katrínu Björgvinsdóttur. Drengirnir voru allir skráðir til leiks í flokknum RX male og endaði Ægir í 3. sæti af þeim 72 sem skráðir voru til keppni en aðeins 56 kláruðu mótið. Þá endaði Birkir Örn í 7. sæti, Viktor Jóhannes í 23. sæti, Daði í 35. sæti og Arnar Bjarki í 52. sæti. Þórunn Katrín var svo skráð í Intermediate kvennaflokki og endaði í 8. sæti af 31 en aðeins 25 kláruðu keppnina. Glæsilegur árangur hjá þeim öllum.
Feykir hafði samband við Ægi til að óska honum til hamingju með frábæran árangur og spurði hvað tæki nú við eftir þetta mót og sagði hann að núna taki við stutt hvíld, vika eða tvær, og svo byrjar undirbúningur fyrir Open sem er fyrsta stig í ferlinu í að komast á heimsleikana í Crossfit sem haldið er í lok febrúar.
Undirbúningur fyrir svona keppni á sér langan aðdraganda og er ekki nóg að skrá sig heldur þurftu þau að taka þátt í online móti og senda inn skorið sitt. Innan þriggja vikna fengu þau svo upplýsingar um það hvort þau hafi náð inn í keppnina eða ekki. Þetta átti sér allt stað í júní en þegar niðustöðurnar voru komnar í hús þá tók alvaran við og voru þau á stífum æfingum fram að keppni. Hópurinn fékk með sér Haraldur Holgeirsson en hann sá um utan um haldið á hópnum alla helgina þar sem allir nema Ægir og Birkir voru að keppa í fyrsta skipti á þessu móti og því alltaf pláss fyrir góða fræðslu og gott pepp fyrir átökin frá vönum crossfit einstaklingi.
Eins og sjá má á myndinni var hópurinn vel sponsaður af HYBRD en það er íslenskt fyrirtæki og er Birkir Örn Kristjánsson einn af eigendunum. ,,Okkur fannst vanta íþróttavörumerki sem býður upp á allt það besta á sama stað, undir sama merki sérstaklega fyrir Crosstraining. Draumurinn okkar er að styðja vel við bakið á Íslensku íþróttafólki og svara þeirra kröfum í gæðum og búnaði," segir á heimasíðunni þeirra www.hybrd.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.