Um handspritt og persónuvernd
Herra Hundfúll hélt að hann hefði himinn höndum tekið þegar handspritt-flaska var það fyrsta sem blasti við honum þegar hann kom inn í kjörbúð á dögunum. Og bara ein eftir í hillunni. Svo hann setti brúsann glaður í bragði í körfuna og gerði rogginn sín innkaup.
Þegar hann kom að kassanum varð uppi fótur og fit þegar brúsinn uppgötvaðist. Einn kúnninn sakaði Hundfúlann um að stofna lýðheilsu íbúa í hættu með þvi að fjarlægja handsprittið sem kúnnarnir áttu að nota til að forðast smit! - Að gríni loknu fékk Herra Hundfúll annan óopnaðan brúsa af spritti, en án pumpu - þær eru víst ófáanlegar.
Herra Hundfúll hafði nokkrum dögum áður farið í apótekið að sækja lyfin sín. Kumpánlega rétti hann afgreiðsludömunni lyfseðilinn sinn en varð frekar undrandi þegar hún vildi ekki taka við seðlinum. Kom í ljós að þær reglur giltu í apótekinu að starfsfólk mætti ekki taka við lyfseðlum sökum hættu á smiti. Hundfúll varð því að þilja upp kennitöluna hátt og skírt og sömuleiðis nafnið á lyfinu sem átti að sækja. Það þarf að halda tveggja metra bili milli fólks þannig að ekki þýðir að hvísla nafninu á lyfjunum. Nú er næsta víst að ekki er öllum vel við að þurfa að auglýsa yfir fulla búð af fólki hvað lyf það er að nota en nauðsyn brýtur lög. Persónuverndin virðist augljóslega einn sá þáttur sem verður að lúta í gras fyrir COVID-19.
Svona er lífið á vordögum 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.