Hvenær er nóg nóg?
Eins og einhverjir þá friðar Herra Hundfúll sína rykföllnu samvisku með því að láta smá-aur renna í góð málefni að eigin vali. Fyrir nokkrum árum sprengdi Hundfúll sinn persónulega góðmennskuskala með því að velja að gefa lágmarksupphæð mánaðarlega til UNICEF - Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Honum leið vel með sjálfan sig eftir þennan óvænta góðmennskugjörning.
Nýlega fékk hann þó hringingu (og svo sem ekki í fyrsta skipti) og ungur maður spurði hvort þetta væri Hundfúll og játti Hundfúll því, þegar mæðulegur yfir því að vera slitinn frá sjónvarpinu þó þar væri nú fátt um fína þætti.
Hringjandi þakkaði Hundfúlum fyrir mánaðar fjárstyrk til barna í neyð og Hundfúll leyfði manninum síðan að fara yfir helstu afrek sem hinn mánaðarlegi þúsundkall hafði unnið með hjálp UNICEF. Þúsundkallinn, í félagi við fleiri vini sína, hafði bjargað því sem bjargað varð í Jemen og veitt fjölda barna í Afríku aðgang að perlandi vatsndropum. Eitthvað fleira var talið til sem Hundfúlum mistókst að festa í minni því ljóst var að ræðustúfinn bar að alþekktum brunni; Hundfúll væri búinn að bjarga fjölda barna en gæti bjargað svo miklu fleirum ef hann bara hækkaði örlítið friðþægingarskattinn. Og nú leið honum pínu eins og nýsleiktu jólafrímerki – en því miður hafði í leiðinni fallið á hans fínu samvisku.
Að sjálfsögðu veit Hundfúll að þúsundkallinn er einungis örlítill dropi í örvæntingarhaf heimsins en það gárar vonandi til góðs af hverjum dropa og þegar fleiri dropar koma saman myndast kannski vin.
Niðurstaða samtalsins varð þó á þann veg að Hundfúll ákvað að láta þúsundkallinn duga áfram, þrátt fyrir auðheyrileg vonbrigði á hinum enda línunnar og bergmálið af ákalli barna í neyð. Þrátt fyrir veiklaða samvisku fékk Hundfúll að sjálfsögðu stuðning og klapp á bakið fyrir staðfestuna frá einhverjum félaga sinna morguninn eftir og var minntur á möntruna góðu: Ég er nóg!
Kannski átti mantran að notast undir öðrum formerkjum, en eitt er víst, að hvað þetta varðar er ÉG svo langt í frá nóg! Styðjum góð málefni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.