Hundfúll er alltaf að græða
Herra Hundfúll fékk hringingu frá 365, kurteisir gaurar á báðum endum. Sölumaðurinn segir Hundfúlum að nú sé Hundfúll búinn að vera með fríáskrift af öllum stöðvum hjá 365 í fjóra mánuði og spyr hvernig honum hafi líkað og Hundfúll segir eitthvað á þá leið að þetta hafi bara verið fínt.
Sölumaðurinn segir Hundfúlum að þar sem hann sé áskrifandi að Sportpakkanum, hvort hann vilji ekki bæta við áskrift að Stóra pakkanum fyrir 4500 krónur aukalega á mánuði. „Ah,“ segir Herra Hundfúll. „Það var ágætt að hafa þessar rásir til að horfa á en ég held ég láti reyna á það hvort mér leiðist án þeirra. Ég hringi þá bara í þig og panta áskrift síðar.“
Hundfúll heyrir að sölumaðurinn er nú pínu svekktur með þetta en hann gefst ekki alveg upp og býður Hundfúlum nú kostaboð. Hann segir: „Ég sé að þú ert að borga 14900 á mánuði fyrir Sportpakkann og þú ert búinn að vera áskrifandi árum saman. Ef þú festir Sportpakkann í 12 mánuði þá lækkar verðið í 11900 á mánuði. Þú borgar þá 36000 krónum minna á ári!“ Þetta er nú sæmilegasta lækkun hugsar Hundfúll með sér og segir: „Heyrðu, þetta er nú svo fínt tilboð að ég held bara að ég bæti þá þessum 4500 krónum við sem þú varst að bjóða mér áðan.“ Áskriftin hjá Hundfúlum hækkar jú um 1500 krónur á mánuði, hann fær meira fyrir sinn snúð og 365 líka – allir vinna! „Uuu, ég veit ekki hvort það er hægt,“ segir kappinn. „Heyrðu, leyfðu mér að hringja í þig aftur eftir fimm mínútur,“ segir hann svo. „Ókei,“ segir Hundfúll hissa og þeir kveðjast í bili.
Sölumaðurinn hringir aftur eftir smá stund og segir Hundfúlum að hann sé búinn að tala við sölustjórann og markaðsstjórann og það þurfi að skoða þetta aðeins og það eigi eftir að reikna út verðið á Stöð2. Hvort það sé ekki í lagi að hann hafi bara samband út af þessu þegar allt er orðið klárt. „Jú, það er bara fínt,“ segi Herra Hundfúll. Síðan festi hann verðið á Sportpakkanum og Hundfúll „græddi“ 36000 krónur á samtalinu.
Já. Það er margt skrítið í kýrhausnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.