Heimsbyggðin fær óvæntan kinnhest
Herra Hundfúll er, eins og flestir Íslendingar, sjokkeraður í kjölfar úrslitanna í forsetakosningum í USA. Í lýðræðislegum kosningum var Donald Trump valinn forsetaefni Repúblikana og nú var hann kjörinn forseti eftir óvæntan sigur á frekar óspennandi og þreytulegum frambjóðanda Demókrata, Hillary Clinton. Þrátt fyrir galla hennar virtist hún engu að síður svo miklu hæfari en Trump, sem virðist gjörsneyddur flestum þeim mannkostum sem fólk almennt tengir við starf valdamesta þjóðhöfðingja heims.
En einhverra hluta vegna voru fleiri Bandaríkjamenn sem kusu Trump en Clinton og það þarf enginn að reyna segja Herra Hundfúlum að allir hafi þeir verið fífl eða hálfvitar. Heill hellingur af vel meinandi og góðu fólki hefur kosið hann í von um betri tíð og öflugri Ameríku. Sorglegt, og í raun grafalvarlegt, er þó að sjá þetta fólk horfa framhjá rasismanum, kvenfyrirlitningunni og svikseminni sem hefur einkennt þann aðila sem það hefur kosið að velja sér sem þjóðhöfðingja.
Niðurstaða kosninganna hlýtur þá óneitanlega að vera áfellisdómur yfir stjórnartíð Barack Obama (sem við Evrópubúar dýrkum og dáum) sem skilur þannig við að fólk vill frekar Trump en Clinton. Og úrslitin hljóta að vera óskiljanleg fyrir Hillary Clinton.
Ef við Íslendingar hefðum kosið forseta Bandaríkjanna hefði Hillary sennilega fengið á milli 80–90% atkvæða. Sem segir okkur kannski að við hreinlega skiljum ekki bandarísku þjóðarsálina og ástand mála í USA. Sú mynd sem við fáum í fjölmiðlum af reiðum poppurum, leikurum og menntafólki sem hneykslast á Donald Trump og því sem hann stendur fyrir, er augljóslega bjöguð. Þetta fólk er ekki þverskurður bandarísku þjóðarinnar þó svo að við vildum gjarnan trúa því.
Herra Hundfúll verður nú, líkt og aðrir áhyggjufullir íbúar á plánetunni jörð, að krossleggja fingur og vona að meira sé spunnið í Trump en vænta má út frá framgöngu hans í kosningabaráttunni vestan hafs og að með batnandi englum sé best að lifa.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.