Hættum þessu væli!
feykir.is
Hr. Hundfúll
27.01.2022
kl. 11.01
Lið Íslands hefur undanfarna daga tekið þátt í Evrópumótinu í handbolta í Ungverjalandi og Serbíu. Eftir nokkuð magurt gengi síðustu árin eftir kynslóðaskipti í liðinu voru menn nokkuð bjartsýnir á gengi liðsins þó árangurinn hafi í raun farið fram úr væntingum að þessu sinni... þrátt fyrir kórónuveirusmit ríflega helmings leikmanna liðsins. Er óhætt að fullyrða að lítt þekktir handknattleiksmenn hafi heillað þjóðina með góðum handbolta og sálarstyrkjandi eldmóði, sama hvað á hefur dunið. Á endanum stóðu vonir þjóðarinnar til þess að frændur vorir Danir dröttuðust nú til þess að vinna leik sinn gegn Ólympíumeisturum Frakka og tryggja þannig liði Íslands sæti í undanúrslitum mótsins.
Eftir að hafa byggt upp væntingar landsmanna og leikið Frakka grátt framan af leik þá fór allt í skrúfuna hjá Dönum síðustu tíu mínútur leiksins og fór svo að lokum að Frakkar unnu með einu marki. Að mati þjóðarinnar var þetta ekki Frökkum að kenna heldur Dönum sem enn mötuðu Íslendinga á mygluðu mjöli, fólk sem engan áhuga hefur á gömlu handritunum vildi nú fá allt safnið heim frá Danmörku og sennilega helst á stafrænu formi. Skagfirsk Júróvisjónhetja vildi skila stigunum þremur sem hann fékk á Parken í denn. Þingmaður Pírata vill dönsku kórónuna og danska kónginn af þinghúsinu og Hagkaup aflýsir dönskum dögum... kannski að eilífu!? Já, menn voru ekki lengi að komast í þennan gír, sumir fyndnir og aðrir ekki.
Eftir að hafa fylgst með yfirlýsingagleði landans dágóða stund fór Herra Hundfúll að pæla í því hvort Íslendingar væru upp til hópa röflandi grenjuskjóður sem vilja að gamla herraþjóðin dragi þá að landi? Hvernig væri nú að setja kassann út og fagna frabærum árangri Íslands við fáránlegar aðstæður. Hvernig sem fer erum við sigurvegarar þessa móts.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.