Gestir boðnir velkomnir?
Herra Hundfúll á það til að gleyma sér þegar hann er á Akureyri. Þar eru nefnilega bílastæðin ekki alltaf alveg frí og þeir sem voga sér að leggja í miðbænum þurfa ýmist að setja pening í stöðumæli eða vera með þar til gerða klukku sem maður stillir þannig að hún sýni hvenær maður hefur lagt bílnum.
Svo má maður kíkja í burtu í kannski tvo tíma en ef maður er lengur þá getur maður fengið sekt. Ekki kæmi það Herra Hundfúlum á óvart að helst séu það gestir Akureyringa sem verði einna helst fyrir barðinu á þessum trakteringum og undarlegt að taka svona á móti gestum sínum. Skilaboðin eru: -Nú ert þú búinn að stoppa nógu lengi á Akureyri, skottastu heim með sektina þína og komdu sem fyrst aftur, hahahaha! -
Það viðurkennist að Hr. Hundfúll gleymdi að setja klukkuna á mælaborðið enda ekkert sérstakt sem minnti hann á bílastæðaklukkuna þegar hann kom til Akureyrar. Annað þegar hann kvaddi bæinn, þá mundi hann eftir að hafa fengið sekt fyrir gleymskuna þó hann stoppaði nú varla neima í klukkutíma í stæðinu. Já, Hr. Hundfúll er ekkert vanur svona hér í menningunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.