Árið 2016 var alveg klikk og bang!
Herra Hundfúll setti saman örlítið uppgjör við árið 2016 sem var aldrei leiðinlegt þó það hafi verið klikk og á stundum alveg snarklikk. Eiginlega alveg klikk og bang!
Rangur maður ársins: Hefur einhver annar verið jafn augljóslega rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi, eins og Sigmundur Davíð þegar hann gekk í Kastljós-gildruna (eða þannig) í vor? Hann er ekki enn dottinn úr þessum karakter – sem er aðdáunarvert en svolítið slæmt fyrir hann sjálfan.
Bakari ársins: Bjarni Ben. Ekki bara laginn við kökuskreytingar heldur er útlit fyrir að hann nái að galdra fram nýja ríkisstjórn.
Ég er kominn heim ársins: Israel Martin, þjálfari Tindastóls í körfunni, er (vel) kominn heim í Skagafjörðinn.
Hryllingur ársins: Ég er kominn heim. Þetta lag er fyrir löngu komið á grænu-bólu-stigið.
Skemmtilegustu vonbrigði ársins: Þegar Jón Viðar fór á Óþelló í Þjóðleikhúsinu.
Lag ársins: Dönsum eins og hálfvitar með Friðriki Dór er fínt og ferskt popp. Eru ekki líka allir búnir að fá upp í kok af rappi og reggíi eftir árið 2016?
Sjálfshól ársins: 50 ára afmæli Sjónvarpsins var ekki alltaf leiðinlegt en það var allt of mikið af því góða og slæma.
Túristar ársins: Kim Kardashian og Kanye West. Hann var síðar fluttur á sjúkrahús í andlegu áfalli. Kannski séð kreditkortareikninginn eftir ferðina?
Yfirtrompari ársins: Dónald Trump. Trompaði allt og alla með bulli og rugli og endaði sem valdamesti maður í heimi.
Lýðheilsugöngur ársins: Biðraðirnar á kleinuhringjastaði höfuðborgarinnar. Kannski einu göngurnar sem hreyfðu eitthvað við mörgum þeirra sem þátt tóku.
Ógnvaldur íslenskrar náttúru ársins: Justin Bieber, mosagöngumaður og mæmari.
Predikari ársins: Hvernig tókst Gumma Ben, fótboltalúða frá Akureyri, að segja alltaf réttu hlutina, og samt svo miklu meira, í einni mestu og lengstu geðshræringu Íslandssögunnar. Á meðan aðrir lýsendur öskruðu þá náði Gummi (sem allir sjá og heyra að elskar fótbolta meira en allt annað) að öskra og segja það sem allir vildu sagt hafa en engum öðrum datt í hug að segja. „Aldrei, aldrei vekja mig af þessum draumi!“ Þetta er enn 100% gæsahúð og það er örugglega enn fólk sem tárast þegar þessi lýsing er spiluð.
Púkó ársins: Nóa konfekt – þó það sé best.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.