Vörumiðlun 20 ára - myndband
Flutningafyrirtækið Vörumiðlun á Sauðárkróki bauð til afmælisgleði í tilefni af 20 ára afmæli sínu á laugardaginn. Opið hús var hjá fyrirtækinu auk þess sem bílar Vörumiðlunar, um 35 tæki óku frá Blönduósi yfir Vatnsskarð og gegnum Sauðárkróki og voru svo til sýnis á útisvæði á Eyrinni.
Boðið var uppá léttar veitingar og glaðning fyrir börn og fullorðna auk þess sem Matti Matt mætti með kassagítarinn og tók lagið. "Mætingin var frábær, örugglega um 400 til 500 manns og áberandi hvað allir voru jákvæðir og í góðu skapi. Ekki skemmdi að sólin fór að skína," sagði Magnús Svavarsson framkvæmdastjóri Vörumiðlunar í samtali við Feyki í morgun.
Vörumiðlun ehf. var á stofnuð árið 1996 með samruna Flutningadeildar KS og Vöruflutninga Magnúsar Svavarssonar á Sauðárkróki. Varð þá þegar til öflugt flutningafyrirtæki með afkastamikinn flota flutningatækja af ýmsu tagi.
Á árinu 2004 voru síðan flutningafyrirtækin Húnaleið á Skagaströnd og Tvisturinn á Blönduósi sameinuð Vörumiðlun. Árið 2006 var flutningadeild KVH á Hvammstanga seld Vörumiðlun og að endingu keypti Vörumiðlun flutningadeild KSH á Hólmavík um áramótin 2009-2010.
Í dag ræður fyrirtækið yfir nær fjórum tugum flutningabifreiða af ýmsum stærðum og gerðum, auk lyftara og hjálparbúnaðar af ýmsu tagi.
Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Eyrinni á Sauðárkróki. Að auki hefur fyrirtækið húsnæði á Blönduósi en á Hvammstanga og Hólmavík er það þjónustað af kaupfélögunum á staðnum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Magnús E. Svavarsson og stjórnarformaður Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri.
Meðfylgjandi myndband og ljósmynd tók Róbert Daníel Jónsson á Blönduósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.