Vonir um að ný borhola við Húnavelli tvöfaldi afköst hitaveitunnar

Mannvirki á vinnslusvæði hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar við Húnavelli.
MYND: RÚV / Andrea María Sveinsdóttir
Mannvirki á vinnslusvæði hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar við Húnavelli. MYND: RÚV / Andrea María Sveinsdóttir

Boranir eftir heitu vatni hjá hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar, sem fara fram að Reykjum við Húnavelli, þykja lofa góðu en í frétt RÚV segir að þess sé vænst að ný vinnsluhola geti aukið afkastagetu hitaveitunnar umtalsvert og bætt úr skorti á heitu vatni í þessum byggðarlögum. Afkastagetan þar var svo gott sem fullnýtt og afhending á heitu vatni til stærri notenda verið takmörkuð síðustu ár. Í fréttinni segir að hitaveitan afkasti í dag 27 til 28 lítrum á sekúndu og allra björtustu vonir séu að nýja holan geti allt að því tvöfaldað þau afköst.

RÚV hefur eftir Óla Þór Jónssyni, rekstrarstjóra hitaveitna hjá RARIK, að nýja holan sé örlítið sunnar en hinar holurnar sem verið er að nýta og líti ágætlega út. Of snemmt sé að segja til um hve mikið vatn vinnsluholan, sem er 1.600 metra djúp, gefi þegar hún verði virkjuð en þó sé full ástæða til bjartsýni.

Þá munu vera sterkar vísbendingar um að vatnið í nýju holunni sé um þremur gráðum heitara en núverandi vinnsluholur en þó sé gríðarlega óvissa sem er fyrst og fremst fólgin í því hversu mikið mun draga úr öðrum holum á svæðinu en vitað er að einhverjar af núverandi holum tengist nýju holunni, en aðrar tengist ekkert.

Sjá nánar á RÚV >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir