Viltu hafa áhrif?
Skipulagsmál og vinna tengd þeim er verkefni sem alltaf er og þarf að vera í endurskoðun. Við skipulagningu fram í tímann eins og t.d. við gerð Aðalskipulags fyrir sveitarfélög eru menn í raun að spá fyrir um þróun og þarfir þess samfélags sem við byggjum og hvert eigi að stefna.
Það þarf að velta fyrir sér spurningum eins og hvernig mun samfélagsgerðin þróast? Hvernig verður atvinnu- og mannlíf komandi ára samsett? hverjar verða þarfir og kröfur íbúanna? Oft hefur hinsvegar sannast að erfitt getur verið að sjá langt fram í tímann í skipulagsmálum því það er svo gríðarlega margt ófyrirséð sem líka hefur áhrif á það umhverfi sem við búum í. Engu að síður er skipulagsvinna mjög mikilvæg stefnumótunarvinna fyrir hvert samfélag.
Til viðbótar þessu þá byggjast skipulagsmál sveitarfélaga á því að ná samstöðu um framtíðarsýn margra ólíkra aðila sem oft á tíðum hafa ólíka sýn á það hvernig umhverfi og aðstæður þurfi og muni þróast. Gott dæmi um hversu erfitt getur verið að klára skipulagsvinnu innan sveitarfélaga er gerð Aðalaskipulags fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð en það er búið að vera í vinnslu frá 1998 og ekki enn búið. Vissulega með hléum en þau hafa fyrst og fremst komið af því að ekki hefur náðst samstaða um einhver atriði í skipulaginu. Reyndar er það staðföst stefna núverandi meirihluta sveitarstjórnar að klára á árinu 2009 Aðalskipulag fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Um það markmið ríkir reyndar óvanalega mikil sátt innan sveitarstjórnar.
Framtíðarsýnin
Aðalskipulag fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð nær yfir allt sveitarfélagið og alla þéttbýlisstaðina fimm. Vegna umfangs vinnunar við svo stórt sveitarfélag með marga þéttbýlisstaði kjósum við að vinna sérstaklega með sveitarfélagið sem heild án breytinga á gildandi skipulögum fyrir þéttbýlisstaðina en taka þá síðan sérstaklega hvern og einn. Fyrsti þéttbýlisstaðurinn í þeirri vinnu er Sauðárkrókur og það verkefni erum við að fara af stað með núna.
Það aðalskipulag sem í gildi er í dag fyrir þéttbýlið Sauðárkrók er frá XXXX. Síðan þá hafa ýmsar breytingar verð gerðar vegna breyttra þarfa íbúa og atvinnulífs. Þær breytingar hafa oftast verið svæðisbundnar vegna einstakra framkvæmda. Það er því orðið mjög aðkallandi að fara aftur yfir heildarmyndina á öllu því svæði sem tilheyrir þéttbýlinu Sauðárkrókur. Við gerð þessa nýja aðalskipulags þarf að sjá eins lagt fram í tímann og hægt er og gera sér grein fyrir þörfum og kröfum framtíðarinnar hjá bæði einstaklingum og atvinnulífi, en við það vakna margar spurningar.
· Hvernig verður atvinnulífið samsett eftir 20-30 ár?
· Hvernig getur umhverfið og skipulagið bætt aðstöðu atvinnulífs og einstaklinga í leik og starfi?
· Hverjar verða kröfur manna til umhverfis og aðstæðna í framtíðinni?
· Hvar á að byggja íbúðar- og þjónustukjarna framtíðarinnar?
Svona mætti lengi telja því spurningarnar eru margar og ólíkar þegar farið er að velta fyrir sér skipulagsmálum framtíðar.
Við endurgerð skipulagsins höfum við fengið í lið með okkur fyrirtæki sem heitir Alta og sérhæfir sig í vinnslu á skipulögum sem þessum í samráði við íbúa og atvinnulíf viðkomandi svæðis. Framundan er þing þar sem öllum íbúum Skagafjarðar sem áhuga hafa á skipulagsmálum á Sauðárkróki er boðið að koma og hafa áhrif á þróunina. Sauðárkrókur er okkar stærsti þéttbýliskjarni og þangað sækja allir íbúar sveitarfélagsins mikla þjónustu. Allir íbúar Skagafjarðar eiga því að hafa skoðun á því hvernig Sauðárkrókur muni þróast á komandi árum.
Ég vil skora á alla sem geta, að koma á þingið þann 7. febrúar næstkomandi og taka þátt í vinnunni og verða þannig gildur þáttakandi í þróun samfélagsins sem við búum í.
Áfram Skagafjörður.
Einar E Einarsson
Formaður Skipulags- og byggingarnefndar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.