Vígalegasta helgi ársins í Skagafirði framundan

MYND ÁSDÍS GARÐARSDÓTTIR
MYND ÁSDÍS GARÐARSDÓTTIR

Í nýjasta tölublaði Feykis var spurning vikunnar Laufskálarétt er… svörin voru sönn að mati blaðamanns, „skemmtilegasta helgi ársins,“ „hámenningarviðburður sem á sér fáa líka í íslenzku nútímasamfélagi,“ „vígalegasta helgi ársins í Skagafirði sem einkennist af stemmingu, gleði og hrossum. Það er nefnilega svo að ein stærsta ferðamannahelgi ársins í Skagafirði er framundan.

Laufskálarétt í Hjaltadal hefst klukkan 13:00 laugardaginn 28. september , öllum er heimilt að taka þátt í stóðrekstrinum en lagt er af stað frá áningarhólfi hestamanna við Sleitustaði og frá Laufskálarétt ekki seinna en 10:30. Stóðið er rekið af stað úr Kolbeinsdal upp úr klukkan 11:30 frá afréttarhliðinu við Unastaði. Stóðrekstrarstjóri í dalnum er Erlingur Garðarsson og Bergur Gunnarsson hefur yfirumsjón með réttarstörfum.

Veisla helgarinnar hefst ekki með réttinni heldur byrjar hún strax á föstudaginn hér má lesa dagskrá sem blaðamaðurinn tók saman. 

Föstudagurinn 27. september.

Á Varmalandi í Sæmundarhlíð verður opið hús frá klukkan 12-17, eins og verið hefur undanfarin ár. Það verða til sýnis og sölu folöld, tryppi og tamin hross. Einnig verður kynning á vatnsbrettaþjálfun. Boðið verður uppá léttar veitingar og allir velkomnir.

Fjölskyldan á Nautabúi í Hjaltadal býður alla velkomna að sjá aðstöðuna og hross í ræktun frá Hestkletti/Þórarinn Eymundsson frá klukkan 14- 16 er fólki boðið að koma og skoða aðstöðuna og þiggja í leiðinni léttar veitingar.

Hjónin Björn Sveinsson og Magnea Guðmundsdóttir á Varmalæk 2 verða með folaldshryssur og nokkur afkvæmi þeirra í garðinum kringum bæinn, bæði föstudag og laugardag frá klukkan 15-18. Verður hægt að grúska aðeins í liðlega 50 ára ræktun Björns. Þau hjónin ætla að bjóða uppá á veitingar og gleði í bakgarðinum. Hlökkum til að sjá sem flesta.

Frá klukkan 16-18 verður Hrossaræktarsamband Skagfirðinga -HSS með sölusýningu í reiðhöllinni Svaðastöðum.

Stórsýning í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki, húsið opnar 19:00 og sýningin hefst á slaginu 20:00. Skipuleggjendur sýningarinnar lofa veislu, úrvals hestar, knapar og stórskemmtilegir kynnar. Forsala aðgöngumiða á sýninguna hófst í gær (þriðjudag) og verður hægt að nálgast miða á N1, Sauðárkróki. Miðaverð í forsölu er kr. 4.000, frítt fyrir 12 ára og yngri, (í fyrra seldist upp. )

Fyrir þá sem ekki ætla á sýningu í Reiðhöllina geta skellt sér á RISA Músík Bingó partý í Höfðaborg á Hofsósi! Sturluð stemning og margir glæsilegir vinningar í boði! Fanney Birta hefur slegið í gegn með bingóin sín um allt land og opnar húsið 20:00 og er mælt með að mæta snemma bingóið hefst svo á slaginu 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr. 18 ára aldurstakmark og það verður bar á staðnum

Rúnar Eff heldur uppi kántrýstuðinu á Kaffi Krókur fram á nóttina.

Ball verður á Hótel Varmahlíð eins og undanfarin ár með Loga frá Varmalæk ásamt Jonna og Gumma. Veitingastaðurinn á hótelinu er opinn frá 18:00-21:00.

Laugardagurinn 28. September

Laufskálarétt byrjar klukkan 13:00

Þeir sem ekki náðu að heimsækja hjónin á Varmalæk á föstudeginum geta gert það frá klukkan 15-18

Hótel Varmahlíð verður með opinn veitingastað frá 18:00-21:00, íslensk tónlist barinn opinn og góð stemming.

Laufskálaréttarballið, stærsta sveitaball ársins, sem þið viljið ekki missa af í Reiðhöllinni Svaðastöðum- þar koma fram Herra Hnetusmjör, Hljómsveitin Von, Prettyboitjokkó, Saint Pete og hljómsveitin Á móti sól. Miðasalan er hafin á N1 Ábær, Kaffi krók og Vamos Akureyri. Aldurstakmarkið á ballið er 16 ár og kostar miðinn 6500 í forsölu.

 

Frá lögreglunni á Norðurlandi vestra kom svo þörf lesning fyrir fólk þar sem segir að um næstu helgi er von á fjölda fólks í Skagafjörðinn m.a. til að fagna heimkomu hrossa af afréttum. Í tengslum við þá heimkomu hefur um árabil verið haldið svokallað „Laufskálaréttarball“ í reiðhöllinni á Sauðárkróki. Vakin er athygli foreldra og forráðmanna að 16 ára aldurstakmark er á ballinu. Reynslan hefur sýnt okkur að á slíkum samkomum eru meiri líkur á hvers konar áhættuhegðun sem ekki er aldurssamsvarandi, svo sem áfengisneyslu.

Lögregla í samstarfi við sveitarfélag Skagafjörð mun viðhafa strangt eftirlit með ungmenna og áfengislöggjöfinni. Öll afskipti af ungmennum yngri en 18 ára verða skráð í kerfi lögreglu ásamt því að í þeim tilvikum þar sem bersýnilega er um að ræða áhættuhegðun ungmenna verður málum fylgt eftir með tilkynningum til barnaverndaryfirvalda.

Í öllum tilvikum má ætla að haft verði samband við foreldra eða forráðamenn og óskað eftir því að viðkomandi ungmenni verði sótt. Ítrekað er að öll neysla ungmenna, þar með talin áfengisneysla verður tekin mjög alvarlega.

Áfengislöggjöfin gerir ráð fyrir því að engum yngri en 20 ára sé heimilt að neyta áfengis og ölvun á almannafæri er óheimil. Þá óskum við einnig eftir góðu samstarfi við foreldra, komi til þess að við þurfum að hafa afskipti af ungmennum þeirra.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir