Viðurkenning sem er dýrmæt fyrir starfsfólk og orðspor safnsins

Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri ásamt fulltrúum CIE Tours sem afhentu viðurkennninguna. MYND: BSK
Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri ásamt fulltrúum CIE Tours sem afhentu viðurkennninguna. MYND: BSK

Byggðasafni Skagfirðinga hlotnuðust í ár verðlaunin Awards of Excellence 2023 frá ferðaskrifstofunni CIE Tours. Verðlaunin voru veitt vegna þess að heimsókn á safnið hafði hlotið 90+ í einkunn frá gestum CIE Tours en alls komu hátt í 500 manns frá CIE Tours árið 2023. Árið 2023 var jafnframt fyrsta árið sem hópar frá fyrirtækinu sóttu safnið heim en hóparnir heimsóttu bæði sýningar safnsins og gæddu sér á veitingum í Áshúsi.

Safninu hlotnuðust verðlaunin í febrúar á verðlaunahátíð í Dublin en þau rötuðu fyrst til safnsins á dögunum með Robert Young og Emma Tancred frá CIE Tours sem afhentu Berglindi Þorsteinsdóttur safnstjóra loks formlega verðlaunin. Feykir hafði samband við Berglindi og spurði hvað svona viðurkenning þýddi fyrir safnið og starfsfólk þess.

Það er mjög ánægjulegt og mikill heiður að fá slíka viðurkenningu á góðu starfi! Viðurkenningarnar byggja á spurningakönnun til tæplega 500 gesta á þeirra vegum sem starfsfólk safnsins gerði sitt besta við að taka vel á móti á árinu 2023. Þau fengu einnig veitingar hjá okkur í Áshúsi, súpu og köku, þannig að hóparnir frá þessu ferðaþjónustufyrirtæki staldra kannski aðeins lengur við hjá okkur en margir aðrir hópar. Það er því dýrmætt fyrir starfsfólk safnsins að vita fyrir vissu að gestirnir kunna vel að meta móttökuna og hversu vel þau standa sig í því sem þau eru að gera. Þetta er sannarlega einnig gott fyrir orðspor safnsins, sem og önnur söfn eða fyrirtæki sem eru í viðskiptum við ferðaþjónustufyrirtæki, þegar þau mæla og halda vel utan um upplifun gesta sinna af áfangastöðum og gera því vel skil með slíkum hætti líkt CIE Tours gerir. Við erum mjög þakklát.“

Varstu ánægð með sumarið á safninu? „Sumarið gekk mjög vel og í nógu að snúast hjá starfsfólki safnsins. Fyrstu átta mánuði ársins hefur safnið tekið á móti rúmlega 50 þúsund manns, sem eru um fimm þúsund færri gestir en á sama tíma og í fyrra. Það ár sprengdi alla skala og í raun var það of mikill fjöldi með tilliti til innviða, s.s. stærð bílastæðisins og svo framvegis, þó svo okkur gangi betur að aðgangsstýra eftir að við lokuðum safnsvæðið af. Við heyrum hið sama og kemur fram í fréttum að erfiðara gangi að selja í hópferðir vegna hækkandi verðlags og fregna af eldgosum. Aftur á móti fáum við enn fjölmarga sjálfkeyrandi gesti frá Suður-Evrópu, Ítalíu, Frakklandi og Spáni í ágústmánuði – ætli þeir séu ekki að flýja hitann.,“ segir Berglind.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir