„Við erum með fleiri góða íslenska leikmenn“
„ Heilt yfir hef ég verið sáttur. Við höfum átt góðar frammistöður í mörgum leikjum í sumar. Auðvitað hafa einnig komið leikir sem við höfum ekki átt okkar dag eins og gengur og gerist. Stigasöfnunin hefur verið fín en okkur finnst samt að við ættum vera með fleiri stig,“ segir Ingvi Rafn Ingvarsson, þjálfari Kormáks/Hvatar í 2. deildinni í knattspyrnu. Í spjalli við Feyki segir hann að sem nýliðar í deildinni séu Húnvetningar hinsvegar nokkuð sáttir eins og staðan er núna. „Við þurfum að halda áfram að safna stigum í þeim leikjum sem eftir eru.“
Meturðu það þannig að hópurinn sé sterkari í ár en sumarið á undan? „Já, ég myndi segja að hópurinn sé sterkari. Við erum með fleiri góða íslenska leikmenn. Þá erum við með mikið af sömu erlendum leikmönnum frá því í fyrra sem þekkja liðið enn betur í ár, plús tvo nýja spilara sem hafa komið vel inn í þetta hjá okkur.“
Er staða liðsins betri eða verra en þú hefðir reiknað með á þessum tíma deildarkeppninnar? „Ég myndi telja stöðuna vera á pari við það sem við bjuggumst við fyrir mót. Auðvitað viljum við vera hærra í töflunni og með fleiri stig en deildin er mjög jöfn og það er því mjög stutt bæði upp og niður töfluna.“
Finnst þér mikill styrkleikamunur á 3. deild og 2. deild? „Það er töluverður styrkleikamunur á þessum deildum. Aðallega finnur maður að metnaðurinn og umgjörðin hjá öllum liðum í deildinni er meiri og hver leikur hjá okkur er mjög krefjandi. Hraðinn í leikjum er meiri og heilt yfir fótboltinn betri. Hver mistök finnst mér einnig telja meira sem er skiljanlegt þegar deildin er svona jöfn.“
Hvað hefur þú verið ánægðastur með í liði þínu í sumar, hafa t.d. einhverjir leikmenn komið þér skemmtilega á óvart? „Það sem ég er ánægðastur með hingað til er að við höfum sannað það fyrir okkur og öðrum að við eigum erindi í þessa deild. Við höfum gefið öllum liðum leik og náð að safna það mörgum stigum að við erum í fínni stöðu eins og er. Þetta er hinsvegar ekki búið og vonandi náum við að færa okkur aðeins hærra í töflunni á lokasprettinum. Þá finnst mér varnarleikurinn okkar hafs oft á tíðum verið mjög öflugur sem hefur verið lykilatriði fyrir okkur í sumar. Enginn leikmaður sem hefur komið mér mikið á óvart. Ég vissi hvað við værum að fá í Sigurði Pétri þegar hann kom til baka fyrir tímabilið og hefur hann verið frábær í sumar. Þá hefur hafsentinn Sergio Oulu verið mikil himnasending fyrir okkur, virkilega góður leikmaður. Það má kannski segja að það sem hefur komið mest á óvart í sumar er að Sigurður Aadnegard hefur einungis einu sinni tekið út leikbann í sumar,“ segir Ingvi Rafn léttur.
Þið eruð með 18 stig þegar sex umferðir eru eftir. Hvað reiknarðu með að þurfi mörg stig til að tryggja sæti í deildinni og hvernig leggjast næstu leikir í þig? „Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mörg stig, 6-9 stig í viðbót myndi ég halda að dugi til að halda sætinu í deildinni. Næstu leikir leggjast mjög vel í mig. Við erum staðráðnir í að sækja eins mörg stig og mögulegt er í þessum sex leikjum sem eftir eru. Næstu þrír leikir eru mjög mikilvægir fyrir okkur og vonumst við eftir níu stigum úr þeim,“ segir Ingvi Rafn að lokum.
Næsti leikur Kormáks/Hvatar er á laugardaginn á Samsung-vellinum í Garðabæ og hefst kl. 14:00. Garðbæingar eru í tíunda sæti með 16 stig en Húnvetningar í níunda með átján stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.