Vetrarsólstöður í dag
Margir fagna eflaust vetrarsólstöðum, en þær eru einmitt í dag, 22. desember og að þeim loknum tekur daginn að lengja á ný. Á vefsetri Almanaks Háskóla Íslands kemur fram að tíminn frá sólaruppkomu til sólarlags þennan dag er 4 klukkustundir og 8 mínútur í Reykjavík. Þar er einnig að finna upplýsingar um dögun, birtingu, sólris, hádegi, sólarlag, myrkur og dagsetur á sjö daga fresti fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri, Grímsey, Norðfjörð og Vestmannaeyjar. En hvers vegna verða vetrarsólstöður?
Á stjörnufræðivefnum er fjallað um sólstöður (sólhvörf). Þar segir m.a.:
Mitt á milli vor- og haustjafndægranna liggja tveir aðrir mikilvægir staðir eða punktar á sólbaugnum. Þann 20. til 23 desember nær sólin þeim stað á sólbaugnum sem er lengst suður af miðbaug himins. Verða þá vetrarsólstöður sem markar syðstu og lægstu stöðu sólar á himinum. Byrjar þá sólin að hækka á lofti. Sex mánuðum síðar eða þann 20. til 22. júní nær sólin þeim stað á sólbaugnum sem er lengst norður af miðbaug himins. Verða þá sumarsólstöður sem marka nyrstu og hæstu stöðu sólar á himninum. Byrjar þá sólin aftur að lækka á lofti. Breytileiki dagsetningana stafar af því að almanaksárið er ekki jafnlangt árstíðaárinu.
Þar sem staðsetning sólar á himinhvolfinu breytist hægt og rólega yfir árið, breytist einnig dagleg leið hennar þvert yfir himinninn (vegna snúnings jarðar) með árstíðunum. Það þýðir að á fyrsta degi vors eða hausts, þegar sólin er við jafndægur, rís sólin beint í austri og sest beint í vestri. Þegar norðurhvelið hallar frá sólinni og vetur er á norðurhvelinu, rís sólin í suðaustri. Dagsbirtu nýtur þá í innan við tólf klukkustundir á meðan sólin skimar lágt yfir sjóndeildarhringnum í suðri og sest í suðvestri. Á sumrin á norðurhvelinu, þegar norðurhvelið hallar í átt til sólar, rís sólin í norðaustri og sest í norðvestri. Sólin er þá í nyrstu stöðu við sumarsólstöður og þá er dagurinn lengstur á norðurhvelinu. Við sumarsólstöður sest sólin ekki norðan norðurheimskautsbaugsins og rís ekki sunnan suðurheimskautsbaugsins. Hér á landi gægist sólin í örfáar klukkustundir yfir sjóndeildarhringinn yfir háveturinn en skín skært allan sólarhringinn yfir hásumarið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.