Verslun KS Hofsósi opnuð - Myndir

Í morgun klukkan tíu var opnuð að nýju verslun KS í húsnæði Kaupfélagsins að Suðurbraut á Hofsósi, eftir gagngerar endurbætur. Eldur kom upp í versluninni þann 20. maí 2011 og nokkrum dögum síðar var henni fundin bráðabirgðaaðstaða í húsnæði Björgunarsveitarinnar Grettis, þar sem hún hefur verið síðan. Í dag, rétt rúmum tveimur árum síðar, er komin vel búin verslun í upprunalegu húsnæði. Opið verður virka daga frá 10-22, laugardaga frá 11-21 og sunnudaga frá 12-21.

Að sögn Ólafs Sigmarssonar, framkvæmdastjóra verslunarsviðs hjá KS, reyndist allt innvols verslunarinnar ónýtt eftir brunann á sínum tíma og var því allt endurnýjað sem innanstokks var. Húsið hefur einnig verið tekið í gegn að utan.

Þegar blaðamaður renndi í hlað, fáeinum mínútum eftir opnunina, var þegar kominn fjöldi viðskiptavina sem lýstu yfir ánægju sinni með hina endurbættu verslun og aukið vöruúrval. Starfsfólk hafði í nógu að snúast og var í óða önn að fylla á hillur og verðmerkja vörur og koma öllu haganlega fyrir.

Eins og sagt var á frá á Feyki.is á dögunum var í lok maí ráðinn nýr útibússtjóri við verslunina og er það Árni Bjarkason sem stýrir henni nú. Sagði hann allt hafa tekist í tæka tíð fyrir opnun, undirbúningi hennar hefði lokið skömmu fyrir miðnætti í gær en síðustu vinnudagar hefðu vissulega verið langir. Sjálfur var hann mættur í verslunina um hálfsjö í morgun. Tæknimál virtust farin að rúlla á réttan hátt, nema hvað afgreiðslukerfi veitingarsölunnar var ekki komið í lag og voru tæknimenn á staðnum að vinna að lausn málsins. Árni sagðist eiga von á góðri helgi, enda Jónsmessuhátíð í Hofsósi, sem er fjölmennasta ferðamannahelgi ársins í þorpinu. Var brottflutta Hofsósinga og aðra gesti þegar farið að drífa að.

Hin nýja verslun er glæsleg í alla staði, og eins og kaupfélögum á landsbyggðinni er lagið fæst þar flest sem hugurinn girnist. Verslunarhúsnæðið sem slíkt er jafn stórt og áður var og nú er komin veitingasala í syðri hluta hússins, þar sem var sjoppa var áður fyrr, en hún hafði verið aflögð löngu fyrir brunann, en þá voru verslunin og sjoppan aðskilin. Stigi milli hæða var fjarlægður og starfsmannaaðstöðu breytt. Ekki er lengur innangengt milli hæða, en að sögn Ólafs hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvernig efri hæðinni verður ráðstafað.

Á sínum tíma var eldurinn rakinn til frystiskáps en hann slokknaði af sjálfsdáðum, af súrefnisskorti, að því er talið er. Starfsmaður á leið til vinnu að morgni fann brunalykt, lokaði aftur og kallaði samstundis út slökkvilið. Er talið að hárétt viðbrögð á sínum tíma hafi komið í veg fyrir enn frekari skemmdir.

.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir