Verkís tekur virkan þátt í Starfamessu SSNV

Frá vinstri: Lára Halla Sigurðardóttir, Jakob Logi Gunnarsson, Júlíus Helgi Bjarnason, Eyþór Fannar Sveinsson, Jónína Ingibjörg Samúelsdóttir og Magnús Ingvarsson. Á myndina vantar Ragnar Bjarnason, útibússtjóra Verkís á Norðurlandi og Þóreyju Eddu Elísdóttur, sem hefur verið staðsett á Hvammstanga.
Frá vinstri: Lára Halla Sigurðardóttir, Jakob Logi Gunnarsson, Júlíus Helgi Bjarnason, Eyþór Fannar Sveinsson, Jónína Ingibjörg Samúelsdóttir og Magnús Ingvarsson. Á myndina vantar Ragnar Bjarnason, útibússtjóra Verkís á Norðurlandi og Þóreyju Eddu Elísdóttur, sem hefur verið staðsett á Hvammstanga.

Í janúar 2020 opnaði Verkís starfsstöð á Faxatorgi á Sauðárkróki. Byggingafræðingurinn Magnús Ingvarsson var eini starfsmaðurinn til að byrja með er nú, tæplega þremur árum síðar, eru fimm starfsmenn Verkís með aðstöðu á skrifstofunni og verkefnin hafa verið mörg og fjölbreytt. Fjölgunin hefur farið fram úr björtustu vonum og ljóst að Sauðárkrókur hefur mikið aðdráttarafl. Starfsstöðin á Sauðárkróki heyrir undir útibú Verkís á Norðurlandi sem staðsett er á Akureyri.

Verkís mun taka þátt í Starfamessu SSNV á morgun, þriðjudaginn 22. nóvember nk. Þar mun starfsfólk fyrirtækisins á Norðurlandi taka vel á móti nemendum úr elstu bekkjum grunnskólanna á Norðurlandi vestra og nemendum FNV sem koma til að kynna sér framtíðarstörf með áherslu á iðn-, verk-, tækni- og raungreinar.

Veðursjáin á Selfelli í landi Víkna á Skaga

Yfir 350 manns starfa hjá Verkís og vinna að fjölbreyttum verkefnum á Íslandi og erlendis. Menntun og reynsla starfsfólksins er fjölbreytt og eru innan raða okkar m.a. verkfræðingar og tæknifræðingar á ýmsum sviðum, iðnfræðingar, byggingafræðingar, húsasmiðir, rafvirkjar, dýravistfræðingur, fiskifræðingur, skipulagsfræðingar, jarðfræðingar, landfræðingar, tækniteiknarar, landslagsarkitektar, lýsingarhönnuðir, bókasafnsfræðingur og svo mætti lengi telja.

Fjölbreytt verkefni á Norðurlandi vestra

Starfsfólk Verkís á Sauðárkróki hefur haft nóg fyrir stafni síðastliðin þrjú ár. Magnús og Þórey Edda Elísdóttir, sem hefur haft aðstöðu á starfsstöð Verkís á Hvammstanga, segja að eitt eftirminnilegasta verkefnið sé veðursjáin á Selfelli í landi Víkna á Skaga. Þar sá Verkís um verkefnastjórn, gerð aðaluppdrátta og byggingarstjórn.

Verkís veitti ráðgjöf við flutning húseininga frá
Þeistareykjum og uppbyggingu á skíðasvæði Tindastóls.

„Við höfum komið að uppbyggingu aðstöðuhúss á skíðasvæði Tindastóls, endurgerð og viðbyggingu við gamla Minjahúsið sem breytt var í gistiaðstöðu fyrir 100 gesti, límtréshús fyrir hátækniframleiðslu á fæðubótarefnum, viðhald- og endurbætur á fasteignum ríkissjóðs á Norðurlandi vestra, t.d. heilbrigðisstofnunum, skólum og hjá lögreglu og sýslumanni og styrkumsóknum til endurbóta, orkuskipta og húsafriðunar, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Magnús, aðspurður um verkefni sem ratað hafa á borð starfsmanna Verkís á Sauðárkróki.

 

Fjölbreyttur hópur starfsfólks Verkís á Sauðárkróki

Starfsstöð Verkís á Sauðárkróki er staðsett á efri hæð Faxatorgs en þar eru auk Verkís nokkrir aðrir með skrifstofuaðstöðu. Þar má nefna Vinnumálastofnun, SSNV, Vinnueftirlitið og fleiri. Á miðri hæðinni er stórt borð þar sem starfsfólk hæðarinnar hittist í kaffi- og matartímum. Hópurinn leggur upp með að eiga gott samfélag, þvert á fyrirtæki og stofnanir, og gerir sér af og til glaðan dag. Í haust stóð starfsmannafélag hæðarinnar fyrir pílumóti og gæddi hópurinn sér á heimabökuðum pítsum. Framundan er Pub Quiz þar sem þátttakendur munu einnig taka stöðuna á úrvali jólabjóra og jólaöls.

Starfsstöð Verkís á Sauðárkróki er staðsett á efri hæð Faxatorgs.

Magnús bjóst sannarlega ekki við því að tæpum þremur árum eftir að hann hóf störf sem eini starfsmaður Verkís yrði hann umkringdur starfsfólki Verkís. Hann hefur haldið utan um útibúið á Sauðárkróki og lagt sig fram við að mynda góð tengsl við verkkaupa á svæðinu. Magnús býr á Sauðárkróki ásamt eiginkonu sinni.

Í desember 2021 bættist rafmagnsverkfræðingurinn Júlíus Helgi Bjarnason í hópinn. Hann tilheyrir líkt og Magnús Starfsstöðvasviði Verkís og er búsettur á Reynistað. Í byrjun árs 2022 flutti Jónína Ingibjörg Samúelsdóttir á Sauðárkrók. Hún sinnir verkbókhaldi á Fjármálasviði Verkís. Eyþór Fannar Sveinsson bættist í hópinn í mars þegar hann hóf starfsnám í byggingafræði á Starfsstöðvasviði Verkís. Eyþór hefur lokið sveinsprófi í rafvirkjun og húsasmíði og diplómanámi í bygginga- og rafiðnfræði auk kennsluréttinda. Nú kennir hann einnig húsasmíði við FNV og er búsettur á Sauðárkróki ásamt fjölskyldu sinni.

Íslenskufræðingurinn Lára Halla Sigurðardóttir flutti á Sauðárkrók í júlí. Hún sinnir kynningarmálum hjá Verkís og tilheyrir Skrifstofu framkvæmdastjóra. Rafmagnstæknifræðingurinn Jakob Logi Gunnarsson bætist í hópinn þegar hann flytur ásamt fjölskyldu sinni úr Hörgárdalnum á næstu misserum. Hann hefur starfað hjá Verkís á Orku- og iðnaðarsviði frá því í nóvember 2020 en hingað til verið með aðstöðu í útibúi Verkís á Akureyri.

Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís.

Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís, var í sveit hjá föðursystur sinni Sigurlaugu Jónsdóttur og eiginmanni hennar Stefáni Vagnsyni á Minni-Ökrum í Skagafirði sem barn og unglingur. Hann er þakklátur fyrir tímann í sveitinni og segist taka framkvæmdavitið með sér þaðan. „Þar var aldrei í boði að gefast upp, það kom ekki til greina að gera ekki hlutina því þar var enginn annar til að gera þá fyrir þig. Þarna lærði ég að vinna,“ segir Egill. Afi Egils, Jón í Ketu, bjó Skógargötunni/Suðurgötunni á Sauðárkróki.

Sífellt fleiri kjósa að búa á landsbyggðinni

Verkís er með útibú í öllum landshlutum og í dag starfa um sextíu starfsmenn fyrirtækisins á landsbyggðinni. Áður var það þannig að flestir starfsmenn sem höfðu aðstöðu í útibúum Verkís tilheyrðu Starfsstöðvasviði en þróunin síðustu ár hefur verið þannig að sífellt fleiri kjósa að búa á landsbyggðinni en sinna verkefnum hér og þar um landið og jafnvel erlendis. Það skiptir starfsfólk máli að geta flutt aftur heim og fengið starf í tengslum við sína menntun í sinni heimabyggð.

„Það er metnaður stofunnar að veita staðbundna þjónustu sem víðast á landinu með stuðningi annarra sérfræðinga Verkís. Verkís er fyrst og fremst öflugt og framsækið ráðgjafarfyrirtæki sem býður fyrsta flokks þjónustu á öllum sviðum verkfræði,“ segir Ari Guðmundsson, sviðsstjóri Starfsstöðvasviðs Verkís.

Möguleikinn á því að geta haft aðstöðu á skrifstofu Verkís á Faxatorgi skipti máli þegar Lára, einn af starfsmönnum Verkís á Sauðárkróki, tók ákvörðun um að flytja frá Reykjavík á Sauðárkrók ásamt fjölskyldu sinni í sumar. „Það var stór ákvörðun að færa fjölskylduna á milli landshluta. Við þá ákvörðun skipti mig miklu máli að geta tekið vinnuna með mér á Sauðárkrók, að geta haldið áfram að sinna henni þaðan. Mér finnst líka skipta miklu máli að geta sest inn á skrifstofu Verkís á Faxatorgi og hitt þar vinnufélaga mína, sem og annað starfsfólk á hæðinni. Við komum úr ólíkum áttum en myndum saman samfélag sem er að mínu mati mikilvægt,“ segir Lára.

Ragnar Bjarnason er útibússtjóri Verkís á Norðurlandi.

„Við opnuðum skrifstofu hér á Sauðárkróki fyrir tæpum þremur árum, um áramótin 2019 – 2022, með einum starfsmanni til þess að sinna verkefnum þar. Partur af því að þétta netið okkar var að hafa skrifstofu hér. Hugsunin er sú að við getum þjónustað héðan en ekki endilega að það sitji einhver á skrifstofu í Reykjavík eða á Akureyri og vinni, heldur að það sé sýnileiki og að skilað sé inn í samfélagið á staðnum, að það séu starfsmenn sem búi hérna,“ segir Ragnar Bjarnason, útibússtjóri Verkís á Norðurlandi.

Ragnar segist viss um að þetta form eigi eftir að eflast þar sem fólk hugsar sér til hreyfing í meira mæli og þá eru skrifstofur til staðar. „Það er samþykkt innan fyrirtækisins að fólk geti setið hvar sem er og sinnt sínum verkefnum og það er það sem við erum að gera,“ segir Ragnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir