Verkefnum fjölgar hjá Krák ehf.

Eftir frekar rólegan vetur er heldur að glæðast yfir verkefnastöðu hjá byggingafyrirtækinu Krák ehf. á Blönduósi, að sögn forsvarsmanna þess. Framundan er bygging á tveimur íbúðarhúsum, annað í Skagafirði og hitt á Blönduósi ásamt smíði á nokkrum sumarhúsum hér á svæðinu og eitt í Borgarfirði. Segja má að aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu við íbúðarhús og sumarhús hafi átt sinn þátt í því að ráðist var í þessar framkvæmdir, en þess má geta að endurgreiðslan gildir einnig um viðhald á eldri húsum og frístundarhúsum sé verkið unnið af viðurkenndum aðilum.

 

Þá er einnig að fara í gang frágangur í og við sumarhús Blöndu ehf. í Brautarhvammi þar sem mikið er búið að bóka fyrir sumarið og nokkur hús komin í fasta leigu hjá stéttarfélögum. Einnig á að fara hefja framkvæmdir við gerð nýs göngustígs í Brautarhvammi sem tengir saman göngustíga sem fyrir eru í Hrútey og svo göngustíginn úr Fagrahvammi og niður að ós Blöndu, en Blanda ehf. í samstarfi við Blönduósbæ fékk nýverið styrk frá Ferðamálaráði til þess að ráðast í þessa framkvæmd.

 

Einnig eru framundan nokkur smærri verkefni við viðhald fasteigna og fleira svæðinu. Þá er verið að hefjast handa við uppsetningu á vélum fyrir timburvinnslu í húsnæði Kráks ehf. að Aðalgötu 9 á Blönduósi þar sem fyrirhugað er að tveir til þrír menn verði að störfum. Í verslun Kráks ehf. að Húnabraut 4 á Blönduósi hefur í viðbót við fjölbreytt vöruúrval verið sett inn verslun frá Office 1, sem er ritfangaverslun með alls kyns vörur fyrir fyrirtæki, stofnanir, heimili og skóla með sama verð og í verslunum Office 1  á höfuðborgarsvæðinu.

/Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir