Vel heppnuð kótilettuveisla á Blönduósi og stutt í þá næstu
Tíu ára afmælisveisla Frjálsa kótilettufélagsins var haldin í gær og dugði ekkert minna en félagsheimilið á Blönduósi undir herlegheitin. Að sögn Valla Húnabyggð mættu 215 kótilettuaðdáendur til leiks og á sólríkustu Facebook-síðu norðan heiða segir kappinn að kvöldið hafi verið frábært og þakkar öllum sem gerðu það að veruleika.
Ekki láta kótilettuaðdáendur deigan síga því fyrsta kótilettukvöldið á nýju starfsári verður laugardaginn 2 nóvember í Eyvindastofu og hefst stundvíslega kl 19:30. „Áfram alvöru kótilettur frá SAH Afurðum og topp meðlæt,“ segir Valli í færslu en meðlætið er rabarbarasulta, grænar baunir, brúnaðar karthöflur, smjörfeiti og rauðkál. Tekið er fram að barinn verði opinn og veislustjóri Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.