Vel heppnað minningarmót hjá GÓS

Myndir teknar af Facebook-síðu GÓS
Myndir teknar af Facebook-síðu GÓS
Sunnudaginn 28. júlí fór fram kvennamót til minningar um Evu Hrund hjá Golfklúbbnum Ós á Vatnahverfisvelli við Blönduós. Alls mættu 22 vaskar konur víðsvegar af landinu og líkt og á síðasta ári lék veðrið við keppendur. Mótið var afskaplega vel heppnað í alla staði og allt gekk eins og best var á kosið. Að móti loknu var boðið upp á vöfflukaffi í matsal Húnaskóla og þar fór einnig fram verðlaunaafhending. 
 
Í flokki forgjafar 28 og lægri sigraði Greta Björg Lárusdóttir GÓS, í öðru sæti varð Marsibil Sigurðardóttir GHD og því þriðja Sigríður Elín Þórðardóttir GSS.
Í flokki forgjafar 28,1 og hærri sigraði Magdalena Berglind Björnsdóttir GÓS, í öðru sæti varð Jóhanna Þorleifsdóttir GKS og því þriðja Dagný Marín Sigmarsdóttir GSK.
Keppendur með 28,1 og hærri forgjöf gátu valið að spila 9 holur í stað 18 og í þeim flokki sigraði Hugrún Sif Hallgrímsdóttir GSK og í öðru sæti varð Ingunn María Björnsdóttir GÓS.
 
Til viðbótar við hin hefðbundnu verðlaun var verðlaunað fyrir lengsta upphafshögg á 3. braut og voru þær Margrét Helga Hallsdóttir og Halldóra Andrésdóttir Cuyler, báðar í GSS, högglengstar og hnífjafnar. Þær Sigríður Elín GSS og Dagný Marín GSK fengu svo nándarverðlaun fyrir högg inn á flatir á 2. og 6. braut.
Engin fór tómhent heim því dregið var úr öllum skorkortum auk þess sem Kári Kárason veitti hvatningarverðlaun þeirri konu sem nýtti völlinn best á mótinu og var það Kristín Jónsdóttir GKG sem hlaut þau.
 
Vinningarnir voru afar veglegir og hver öðrum glæsilegri og vill undirbúningsnefnd mótsins þakka kærlega fyrir veittan stuðning, en eins og áður, var nefndarkonum afar vel tekið af fyrirtækjum og einstaklingum þegar leitað var stuðnings. Konur áhugasamar um golfíþróttina geta strax farið að hlakka til næsta minningarmóts sem haldið verður sumarið 2025 á Vatnahverfisvelli segir á Facebook-síðu GÓS.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir