Veginum milli Siglufjarðar og Ketiláss lokað

Skjáskot af Siglufjarðarvegi á vef Vegagerðarinnar. Myndin er frá því kl. 18:40.
Skjáskot af Siglufjarðarvegi á vef Vegagerðarinnar. Myndin er frá því kl. 18:40.

Siglufjarðarvegi á milli Ketiláss og Siglufjarðar hefur verið lokað vegna grjót- og aurskriðu. Vegagerðin beinir því til vegfarenda sem þurfa að komast til Siglufjarðar eða frá Siglufirði að fara Lágheiðina 82 eða þjóðveg 1 yfir Öxnadalsheiði. Það hefur verið úrhellisrigning á mestöllu Norðurlandi í sólarhring, Veðurstofan hefur varað við veðrinu með gulri viðvörun sem stendur til klukkan fimm í nótt.

Auk þess að loka Siglufjarðarvegi varar Vegagerðin við því að vegir vestan og austan Tindastóls, í Laxárdal og á Reykjaströnd, gætu verið varasamir þar sem vatn rennur víða yfir þá og varað er við grjóthruni.

Veðurstofan gerir ráð fyrir að veður gangi niður þegar líður á laugardagsmorgun, hitinn hækkar lítillega og það dregur úr vindi en áfram rignir en væntanlega töluvert minna en í dag. Reikna má með lítilsháttar rigningu á sunnudag, um það bil sex stiga hita yfir daginn og hægri norðanátt.

Eitthvað birtir til á mánudag en í nýjustu spám hefur sólargeislum næstu viku verið fækkað töluvert og dregið úr hitastigum miðað við spárnar frá í gær. Svona er nú bara íslenska sumarið þetta sumarið...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir