„Vatnsnesvegur er bara ófær á löngum kafla“
Íbúar á Vatnsnesi hafa í langan tíma talað fyrir daufum eyrum þegar kemur að vegaframkvæmdum á nesinu fallega. Fyrir Vatnsnes liggur 70 kílómetra malarvegur sem er markaður óteljandi holum og fólki hreinlega vorkunn að fara þar um. „Vegurinn er bara ófær á löngum kafla ef maður getur orðað það þannig. Bílarnir svosem skrölta þetta og fólk þarf að nota veginn til að komast frá A til B en hann er bara hræðilegur,“ hefur RÚV eftir Guðrúnu Ósk Steinþórsdóttur, grunnskólakennara, sem fer veginn daglega.
Guðrún segir ástand vegarins aldrei hafa verið verri en nú. Í frétt RÚV kemur fram að tæplega 30 börn fari veginn til að sækja skóla og segir Guðrún að nú hafi foreldrar fengið nóg og sé farið að skoða alvarlega hver réttur þeirra sé til að halda börnum heima þegar ástand vegarins er með þessum hætti. „Ég er búin að senda erindi til umboðsmanns barna og bíð eftir svari við því, bara reyna fá stuðning vegna þess að þetta eru bara ekkert viðunandi aðstæður fyrir lítil börn.“ Hún segir að akstur eftir holóttum veginum skapi vanlíðan og kvíða meðal barna.
Ekki er gert ráð fyrir vegabótum á Vatnsnesi í Samgönguáætlun fyrr en árin 2030-2034 sem er algjörlega óviðunandi.
Sjá nánar á RÚV.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.