Vatnavextir og skriðuföll á Norðurlandi vestra

Svona var útsýnið af göngustígnum rétt ofan við þar sem skriðan féll. MYNDIR: INGVAR DAÐI
Svona var útsýnið af göngustígnum rétt ofan við þar sem skriðan féll. MYNDIR: INGVAR DAÐI

Óvenju mikið vatnsveður hefur verið á Norðurlandi síðustu tvo daga og regninu hafa fylgt vatnavextir og skriðuföll. Feykir sagði frá því í gær að Siglufjarðarvegi hefði verið lokað milli Ketiláss og Siglufjarðar og er hann enn lokaður. Skriða féll í Hofsá rétt ofan göngubrúarinnar á Hofsósi og skriður hafa fallið á Reykjaströnd og í Vatnsdal.

Allir skorningar og farvegir eru sneisafullir af regnvatni sem gusast niður hlíðar og grundir á leið sinni til sjávar. Feykir fékk upplýsingar um skriðuföll á Reykjaströnd en það má segja að það hafi nánast verið skýfall í austanverðum Tindastólnum í rúman sólarhring. Úlfar Sveinsson bóndi á Ingveldarstöðum tjáði Feyki að töluverður fjöldi af skriðum hefðu fallið en þó ekki lokað veginum um Ströndina. Þá sagði hann að fallið hefði lítil skriða heim að Ingveldarstöðum en taldi að henni hefði ekki fylgt tjón að ráði.

Þá sendi Ingvar Daða á Hofsósi Feyki myndir af skriðunni sem þar féll í Hofsá en hún hefur skilið eftir sig töluvert sár á þessum fallega stað þar sem Hofsáin rennur að gömlu brúnni. Elvar hjá Björgunarsveitinni Gretti á Hofsósi tjáði Feyki að starfsmenn sveitarfélagsins hafi lokað svæðinu af fyrir ofan skriðuna með borðum. Aðspurður hvort svæðið væri enn hættulegt sagðist hann ekki geta sagt til um það. „Það er ekkert gáfulegt að vera að þvælast í brekkunum og við bakkana samt. Aldrei að vita hvort það falli meira fram eða fyllan í ánni fari af stað með einhverjum látum.“

Feykir fékk sömuleiðis fregnir af því að umtalsverð skriðuföll hafi orðið norðan við bæinn Hjallaland í Vatnsdalnum í Austur-Húnavatnssýslu. Að sögn Jóns bónda Gíslasonar á Hofi þá hefur verið býsna mikil rigning á svæðinu, örugglega mismikil og mjög staðbundin. Hann segir að það hafi örugglega rignt meira eftir því sem utar dró.

Rétt er að áminna fólk um að fara varlega þar sem jörð getur verið viðkvæm eftir allar þessar rigningar undanfarið, sérstaklega í hlíðum og nærri árfarvegum þar sem krafturinn í vatninu hefur verið mikill og vatnsmagnið sömuleiðis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir