Var athafnasöm frá unga aldri | Halla Tómasdóttir

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Helga Þórisdóttir gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ég mun leiða hópa og kynslóðir saman til samtals og samstarfs í þágu þjóðar. Ég hef menntunina, reynsluna og tengslanetið til að geta lagst í árar svo um munar.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Mér þykir einlæglega vænt um land og þjóð og vil leggja mig alla fram um að styðja hagsmuni Íslands og Íslendinga á öllum sviðum okkar samfélags. Ég trúi því að með virkjun sköpunargáfu okkar getum við áfram verið mikilvæg fyrirmynd og þannig haft jákvæð áhrif á heiminn.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Hvað margt gott er að gerast um allt land og hversu lítið er fjallað um það.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Að missa pabba viku eftir krabbameinsgreiningu og á sama tíma fara í gegnum efnahags- og samfélagshrunið sem varð haustið 2008.

Hvar og hvenær sástu maka þinn fyrst? - Ég hitti eiginmann minn fyrst árið 1992 í afmælisveislu í heimabæ hans í Grindavík, þar áttum við stutt en einlægt samtal og hann reyndist mér hjálplegur. Það var svo sjö árum síðar sem við felldum saman hugi í Eurovision-partýi, kvöldið sem Selma söng I’m all out of luck. Við fögnum 25 ára samvistum og 20 ára brúðkaupsafmæli í dag þann 29. maí [í dag]!

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég var forvitið barn og velti upp ýmsum möguleikum, allt frá því að verða bóndi til þess að gerast leikari eða fatahönnuður. Ég var athafnasöm frá unga aldri og vissi frá sjö ára aldri að mig langaði til að gera gagn og láta gott af mér leiða og hef reynt að gera það allar götur síðan.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Ég var í sveit öll sumur æskunnar og vann í fiski á unglingsárum og hef mikinn áhuga á að tengja vel við grunn atvinnuvegi okkar á Bessastöðum en tíminn verður að leiða í ljós með hvaða hætti. Eiginmaðurinn er kokkur og við höfum bæði einlægan áhuga á nýsköpun, ekki síst þegar kemur að matvælum og sjálfbærri nýtingu afurða úr sjó og af landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir