Vantar þig rímorð
Þeir eru margir sem glíma við þá iðju að semja vísur. Sumir þurfa ekki langan tíma til að klára vísuna en aðrir lenda í bölvuðu bagsi við að finna rímorðið sem vantar.
Á Bögubelg sem er húnvetnskur vísnavefur er að finna ýmislegt er viðkemur vísum og vísnagerð. Þar er m.a. linkur á á rímorðabók svo nú ætti að vera hægt að klára að botna fyrri partana í Sæluvikuvísnakeppninni sem Safnahúsið stendur fyrir.
Síðusti skiladagur er á föstudaginn 24. apríl og verða úrslit kynnt í Safnahúsinu 26. apríl kl. 16:00. .
Þau sem hyggjast taka þátt í keppninni um bestu vísuna eru beðin um að svara spurningunni: Hver er framtíð lands og þjóðar? Þá eru gefnir þrír fyrripartar og eru veitt verðlaun fyrir besta botninn:
Ég hef engri útrás sinnt
arðinn fengið rýran.
Bankakerfið hrundi í haust
heiðri glatar þjóðin.
Nú er vetur burtu úr bæ
bráðum getur sungið lóa.
Vísur og botnar skulu merktir dulnefni, en nafn höfundar fylgi með í lokuðu bréfi. Úrlausnir þurfa að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga við Faxatorg, 550 Sauðárkróki í síðasta lagi föstudaginn 24. apríl. Einnig er hægt að senda úrlausnir í netfangið skjalasafn@skagafjordur.is og verður þá svo um hnúta búið að dómnefnd sjái ekki hverjir eru höfundar vísnanna. Enn sem fyrr veitir Sparisjóður Skagafjarðar verðlaun fyrir besta botn og bestu vísu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.