Valskonur reyndust Stólastúlkum sterkari
Stólastúlkur fengu lið Vals í heimsókn í gær í Bónus deildinni. Lið Tindastóls hafði unnið síðustu tvo leiki með góðum varnarleik en í gær gekk illa að ráða við vaskar Valsstúlkur sem höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn. Engu að síður var leikurinn í járnum allt fram að lokafjórðungnum þegar gestirnir náðu strax ríflega tíu stiga forystu og bættu síðan bara í. Lokatölur 65-86 fyrir Val.
Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Eftir um fimm mínútna leik var staðan 8-9 en síðasta orðið í fjórðungnum átti Ewa Falenczyk, kom liði Tindastóls yfir með þristi og staðan 17-15. Það tók heimastúlkur tæpar fjórar mínútur að komast á blað í öðrum leikhluta en þá hafði lið Vals náð 10-0 kafla. Upp úr miðjum leikhlutanum náðu Valsstúlkur níu stiga forystu en heimaliðið gafst ekki upp og minnkaði muninn í þrjú stig en staðan í hálfleik var 33-37.
Leikurinn var áfram spennandi í þriðja leikhluta og um hann miðjan kom Oumoul Sarr liði Tindastóls yfir, 44-42, en gestirnir náðu yfirhöndinni á ný þó litlu munaði á liðunum. Þegar mínúta var eftir af þriðja var staðan 52-56 en þristur frá Þórdísi Jónu í liði Vals jók muninn í sjö stig. Valur gerði síðan fyrstu fimm stig fjórða leikhluta og þá var brekkan orðin full brött fyrir heimastúlkur og gestirnir gengu á lagið.
Randi Brown var stigahæst í liði Tindastóls með 22 stig en hún fann ekki fjölina í 3ja stiga skotunum í gær, setti eitt í átta skotum. Sarr var með 20 stig en henni voru á stundum mislagðar hendur, var búin að koma sér í góða stöðu undir körfu Vals en náði ekki að koma boltanum í körfuna. Ewa var með 12 stig en það má segja að lið Tindastóls hafi ekki verið í stuði í stigaskorinu sem má eflaust kenna góðum varnarleik Vals um.
Eins og við værum 40 stigum undir frá fyrstu mínútu
„Við hófum leikinn mjög vel, unnum fyrsta fjórðunginn og fram í miðjan þriðja leikhluta, jafnvel þó við værum að klikka á einföldum lay-öppum, þá vorum við inni í leiknum. Síðustu 15 mínútur leiksins setti Valur meiri kraft í leikinn en við,“ sagði Israel Martín, þjálfari Tindastóls, þegar Feykir spurði hvað honum hefði fundist um leikinn.
Hvað gerði lið Vals vel? „Það varði teiginn [the paint] sinn mjög vel sem neyddi okkur til að taka skotin utan þriggja stiga línunnar en við vorum ekki að setja skotin. Í raun var skotnýtingin okkar slök allan leikinn.“
Hvað var það helst sem vantaði upp á hjá liði Tindastóls? „Betri andlegur undirbúningur og að spila af meiri gleði. Við vorum inni í leiknum í 25 til 30 mínútur en virtumst vera að tapa leiknum með 40 stigum frá fyrstu mínútu. Við lærum bara af þessu og höldum áfram. Við getum aðeins orðið betri,“ segir Israel Martín að lokum.
Næsti leikur Stólastúlkna er gegn liði Þórs á Akureyri 30. október.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.