Valin í U-15 landsliðið í fótbolta :: Íþróttagarpur Elísa Bríet Björnsdóttir Skagaströnd
Elísa Bríet Björnsdóttir er 14 ára gömul og býr á Skagaströnd. Hún hefur gert það gott í fótboltanum og á dögunum sagði Feykir frá því að hún hafi verið valin í U15 landsliðshóp Íslands. Elísa Bríet hefur æft fótbolta síðan hún var fimm ára gömul og lék með Kormáki/Hvöt/Fram þangað til í fyrra þegar hún söðlaði um og skipti yfir í Tindastól.
Aðspurð um hvernig það gangi að búa á Skagaströnd en æfa með Tindastól segist hún reyna að fara sem oftast á æfingar á Sauðárkrók eða allavega einu sinni í viku en svo er hún einnig að æfa aðrar íþróttir á Skagaströnd. „Okkur í 4. flokki gekk alveg frábærlega í sumar, við unnum alla leikina í riðlinum nema tvo og komumst þannig í undanúrslit. Í undanúrslitunum kepptum við á Sauðárkróki á móti Stjörnunni úr Garðabæ. Það var hörkuleikur sem að endaði í vítaspyrnukeppni sem við því miður töpuðum. En engu að síður frábær árangur hjá mér og mínu liði. Ég hef líka verið á mörgum hæfileikamótum hjá KSÍ og hefur það gengið vel,“ segir Elísa.
Það var svo í síðustu viku sem hún fékk að vita að hún hefði verið valin í U-15 landsliðshópinn, sem keppir á UEFA Development mótinu í Póllandi í næstu viku, 2.-9. október. „Mig hefur dreymt um að komast í landsliðið síðan ég var sex ára gömul þannig ég var auðvitað mjög ánægð en get samt ekki sagt að ég hafi verið að búast við þessu;2 segir þessi bráðefnilega fótboltastúlka sem er Íþróttagarpur Feykis að þessu sinni.
Hverra manna ertu? -Þórunnar Elfu Ævarsdóttur og Björn Sigurðsson.
Íþróttagrein: -Fótbolti.
Íþróttafélag/félög: -Umf. fram og Tindastóll.
Helstu íþróttaafrek: -Að komast í U-15 landsliðið.
Skemmtilegasta augnablikið: -Þegar við komumst yfir á móti Stjörnunni og það var svakaleg stemning í stúkunni.
Neyðarlegasta atvikið: -Hmmm, man ekki eftir neinu sérstöku.
Einhver sérviska eða hjátrú? -Já, við verðum alltaf að byrja leik á sama vallarhelmingi annars hef ég tilfinningu fyrir tapleik.
Uppáhalds íþróttamaður? -Luis Diaz og Thiago Alcantara.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Ég myndi velja Stjörnuna til að keppa við í fótbolta.
Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Það er skemmtilegt að keppa á móti liðum sem er sterkur andstæðingur og jafn gott lið og við.
Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Vera góður námsmaður og vera trygg og trú manneskja.
Lífsmottó: -Vera alltaf heilsuhraust og neyta aldrei áfengis né vímuefna.
Helsta fyrirmynd í lífinu: -Mamma er alltaf í fyrsta sæti vegna þess að hún hefur alltaf verið til staðar fyrir mig og stutt mig í einu og öllu. En fyrir utan hana yrði það Sara Björk, vegna þess að hún hefur fylgt draumum sínum síðan hún var lítil og það skilaði henni til árangurs.
Hvað er verið að gera þessa dagana? -Ég er í skólanum og er að undirbúa mig andlega fyrir það sem að framundan er hjá mér.
Hvað er framundan? -Ég er að fara að keppa með 3. flokk um helgina og er að undirbúa mig fyrir U-15 landsliðsferðina.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Já, aldrei að gefast upp og alltaf að fylgja draumunum sínum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.