Valið vekur furðu vestan Þverárfjalls
Heimasíða RÚV flytur fréttir en þar mátti í morgun sjá athyglisverða og skemmtilega úttekt á fótboltavöllum landsins. Þar eru nefndir til sögunnar fótboltavellirnir á Sauðárkróki og á Hofsósi þó svo að þeir ágætu vellir hafi ekki komist í hóp tíu flottustu valla landsins. Blönduósvöllur og Sjávarborgarvöllur á Hvammstanga voru ekki nefndir á nafn í úttektinni og því leitaði Feykir viðbragða hjá Aðdáendasíðu Kormáks og þar stóð ekki á svörum en umsjónarmaður furðar sig á valinu.
Tveir valinkunnir Skagfirðingar voru í 19 manna sérfræðingateymi RÚV; Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður og Vanda Sigurgeirsdóttir fótboltakempa og fyrrum formaður KSÍ. Vanda nefnir bæði til sögunnar Sauðárkróksvöll og Hofsósvöll. „Hofsósvöllur er kannski ekki fallegasti völlur á landinu en Neisti Hofsósi er flottasta liðið, eina liðið sem hefur ráðið konu sem þjálfara í meistaraflokki karla. Yndislegur og krúttlegur bær. Búningsklefarnir eru í kjallaranum á félagsheimilinu, pínulitlir ef ég man rétt. Æfingar voru frekar seint, því fyrst þurfti að fara í fjós. Neistamennirnir mínir frábærir allir sem einn.“
Vanda setur Sauðárkróksvöll í fyrsta sæti á sínum lista og segist eiga margar góðar minningar af honum, „...þá fyrstu frá því ég var tíu ára að spila með strákunum, þá síðustu þegar ég var 43 ára, að spila minn síðasta leik sumarið 2008. Í marki, af öllum stöðum. Dóttir mín, þá átta ára, sagði eftir leikinn: „Mamma varði allt nema tvö.”
Gunni Birgis segir Sauðárkróksvöll vera einn af „...fáum völlum með hlaupabraut sem maður er til í að gúddera og það er aðallega af því að hann er vel staðsettur undir Nöfunum og þessi iconic grasstúka líka.“
Vantar bara Melavöllinn með
Þar sem Feykir reiknaði fastlega með að umfjöllun þessi og hin húnvetnska slaufun sem þar fer fram kæmi við kauninn á mönnum vestan Þverárfjalls þá var leitað eftir viðbrögðum , sem létu ekki á sér standa. „Aðdáendasíða Kormáks furðar sig á valinu, enda hefur það oft borist til heimaeyrna að Blönduósvöllur og Sjávarborgarvöllur á Hvammstanga séu meðal albestu grasvalla landsins,“ segir í svari Aðdáendasíðunnar og áfram er haldið: „Sé tilgangur þessa samkvæmisleiks að velja fallegustu fjöllin við velli eða hvar heitasti lattébollinn fæst þá er það önnur umræða. Fallegustu VELLIRNIR eru hinsvegar í Húnaþingi og mun Aðdáendasíðan halda því hátt á lofti nú sem áður. Að níundi fallegasti völlur landsins sé völlur sem er ekki lengur til [Seyðisfjarðarvöllur] segir meira en margt. Þá vantar bara Melavöllinn með að ekki sé minnst á Laugarbakkavöll með útsýni yfir landsins fegurstu laxveiðiá, Hótel Laugarbakka með girnileg tilboð og fjöll í allar áttir!“ Svo mörg voru þau orð.
Flottasti völlur landsins taldist vera Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum en þeir sem vilja skoða umfjöllun RÚV geta smellt hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.