Úrvalshópar unglinga FRÍ - 5 valin úr UMSS

Frá uppskeruhátíð UMSS

Nýráðinn unglingalandsliðsþjálfari FRÍ, Karen Inga Ólafsdóttir, hefur tilkynnt val sitt í úrvalshópa FRÍ.  Þessir hópar eru valdir á grundvelli ákveðinna viðmiða um árangur síðastliðið sumar og í vetur. Karen valdi fimm keppendur frá UMSS í úrvalshóp sinn.

Í Afrekshóp unglinga FRÍ eru valdir þeir unglingar, 15-22 ára, sem taldir eru eiga möguleika á að komast í allra fremstu röð í heiminum í framtíðinni.  Að þessu sinni eru 11 unglingar valdir í þennan hóp.

 

Linda Björk Valbjörnsdóttir er valin vegna afreka sinna í 300m og 400m grindahlaupum.  Hún setti á síðasta sumri nýtt Íslandsmet meyja (15-16) í 300m grind og átti fyrir meyjametið í 400m grind frá fyrra ári.

 

Í Úrvalshóp unglinga FRÍ eru valdir unglingar, 15-22 ára, sem vakið hafa mikla athygli fyrir góðan árangur í frjálsíþróttum.  Markmið hópsins er að styðja við bakið á þeim og þjálfurum þeirra, allt er þetta gert til að auka möguleika þeirra á að bæta enn sinn árangur og komast frekar á mót erlendis, þar sem þau fá harðari keppni við bestu aðstæður.  Í þennan hóp voru nú valdir 109 unglingar, þar af voru 5 úr UMSS, þau eru:

 

Linda Björk Valbjörnsdóttir sem að sjálfsögðu er einnig í þessum hópi með löngu grindahlaupin, en einnig vegna 60m, 200m, 400m og 800m hlaupa og 60m grind (ih).

Árni Rúnar Hrólfsson með 800m hlaup.

Guðjón Ingimundarson með 100m grindahlaup.

Guðrún Ósk Gestsdóttir  með 60m/80m grindahlaup og langstökk.

Halldór Örn Kristjánsson með 400m grindahlaup. 

Nú um helgina, 4.-5. apríl eru þessir hópar kallaðir saman til æfingabúða í Reykjavík, Þar munu ýmsir góðir þjálfarar líka verða kallaðir til leiks.  Markmið æfingabúðanna er að þjappa hópnum saman, efla samkenndina og liðsandann, og auðvitað að læra eitthvað nýtt.

Þessum stórefnilegu unglingum eru sendar hamingjuóskir og baráttukveðjur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir