Úreltir kynjakvótar :: Leiðari Feykis
Nú kemur hver framboðslistinn í leitirnar líkt og farfuglarnir og sitt sýnist hverjum um uppstillingu frambjóðenda á þeim eins og gengur. Í lauslegri talningu minni á þeim sem þegar hafa litið dagsins ljós má ætla að þokkalegt samspil sé á milli kynja þó halli örlítið á kvenfólkið.
Mig langaði til að forvitnast örlítið um kynjahlutföllin þar sem ég sá frétt um daginn þar sem segir frá Diljá Ámundadóttur Zoega sem ákvað að afþakka 5. sæti á lista Viðreisnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar og sagt þar með skilið við borgarpólitíkina. Diljá sóttist eftir 3. sæti á lista en hafnaði í því fjórða en vegna reglu um kynjafléttu var henni boðið það fimmta sem hún þáði ekki.
Þetta er afleiðing af svokölluðum kynjakvóta sem sett var í lög og tóku gildi 6. júní 2000 og ætlað að jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. „Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði,“ segir m.a. í 1. grein.
Allt er þetta gott og gilt en svo gæti vandast málið. Þann 6. júlí 2019 tóku í gildi lög um kynrænt sjálfræði sem kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.
Það hefur reynst erfitt fyrir marga að skilja þessa nýju skilgreiningu og alveg án þess að að viðhafa einhverja fordóma. „Það er í raun ógerlegt að nefna tölu þegar kemur að spurningunni hversu mörg kyn eru til. Hugtakið vísar ekki lengur einungis til líffræðilegs kyns heldur er það einnig félagslegt hugtak,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í svari sínu við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins á Alþingi síðasta sumar er hann vildi vita hversu mörg kyn mannfólks væru, að mati forsætisráðuneytisins. Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki þurfi að skilgreina kynjakvóta upp á nýtt.
Til að koma með niðurstöðu þessarar óformlegu talningar sem undirritaður viðhafði á framboðslistum sem getið var í upphafi, þá eru 49 karlar skráðir á listana fimm og 40 konur. Þegar einungis eru tekin þrjú efstu sæti hvers lista eru karlarnir átta en konurnar sjö. Kannski breytast tölurnar þegar fleiri listar koma fram.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.