Uppselt er á danslagatónleika
Þess verður minnst nk. föstudagskvöld að 60 ár eru liðin frá því að danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks hóf sitt blómaskeið sem stóð yfir í mörg ár. Haldnir verða tónleikar þar sem dægurlagaperlur fyrri ára verða rifjaðar upp með hjálp fjölda söngvara og hljóðfæraleikara. Aðsóknin hefur farið fram úr björtustu vonum því uppselt er á auglýsta sýningu nk. föstudagskvöld en ákveðið hefur verið að halda aukatónleika kl. 23:00 sama kvöld ef næg þátttaka fæst. Miðasala fer fram í síma 8660114.
Líklega verður ekki á neinn hallað þótt Hulda Jónasdóttir sé nefnd sem upphafsaðili þessa atburðar en margir hafa lagt hönd á plóg til að koma verkefninu á koppinn. Hún segir að danslagakeppnin hafi fyrst verið haldin á Króknum fyrir 60 árum síðan því þá hafi vantað peninga inn í kvenfélagið á Króknum. „Guðrún Gísladóttir, Gunna Gísla, sem var ein af kvenfélagskonunum fékk þá hugmynd, að halda á Króknum danslagakeppni líkt og gert var í Reykjavík á þessum árum, en sú hét Danslagakeppni SKT.
Í fyrstu þurfti Gunna að hafa ansi mikið fyrir því að fá lög send inn í keppnina og sagan segir að hún hafi gengið á milli manna og kvenna á Króknum sem henni fannst líklegt að gætu samið lög, textana samdi hún síðan sjálf. Smám saman fór þetta að ganga betur og oftast barst í keppnina fjöldi laga. Þáttur hljómsveitanna sem sáu um þessar keppnir var gríðarstór en þeir fengu lögin í hendurnar í ansi misjöfnu ástandi, stundum jafnvel eingöngu blístruð eða spiluð á greiður, og þurftu þeir því oft að geta í eyðurnar og stundum hreinlega að endursemja lögin. Þeir áttu það víst til líka að lauma einu og einu lagi inn sjálfir og fengu svo ýmsa bæjarbúa til að skrifa sig fyrir þeim því þeir máttu í fyrstu ekki senda inn eigin lög.
Keppnin var upphaflega alltaf haldin á nýársdag hvert ár. Um daginn var sýning fyrir börn og eldri borgara og um kvöldið var síðan sérstakur hátíðardansleikur. Keppnin var haldin með þessu fyrirkomulagi allt til ársins 1971 en þá lagðist hún af. Keppnin var síðan endurvakin af kvenfélagskonunum á Króknum árið 1994 í talsvert öðru formi og þá var hún kölluð Sæluvikulögin,“ segir Hulda í skemmtilegu viðtali í Feyki vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.