Ungt fólk til forystu – Styðjum Þórdísi Kolbrúnu í 5.sætið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Næstkomandi laugardag munu sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi kjósa sína fulltrúa á lista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Ljóst er að þetta verður erfitt val, enda 17 frambærilegir frambjóðendur í boði en aðeins 6 sæti. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir 21 árs laganemi frá Akranesi gefur kost á sér í 5. sætið.

 

 

 

Þórdísi hef ég þekkt nánast frá fæðingu hennar, og er leitun að skipulagðari, metnaðargjarnari og duglegri manneskju. Hún gefur sig 100% í allt sem að hún tekur sér fyrir hendur hvort sem það er námið, áhugamálið eða vinnan.  Hún er mjög drífandi og fær fólk til þess að gera hlutina hratt og örugglega.

 

Þórdís Kolbrún hefur þrátt fyrir ungan aldur víðtæka reynslu. Hún útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands vorið 2007 og stundar nú nám í lögfræði við Háskóla Reykjavíkur. Hún hefur starfað á ólíkum grundvelli, hjá Sundfélagi Akraness, sem flokkstjóri í vinnuskóla Akraness og hjá Sýslumanninnum á Akranesi. Þórdís Kolbrún dvaldi í Vínarborg sem skiptinemi skólaárið 2005-2006

 

Hún er nú formaður Þórs, Félags ungra Sjálfstæðismanna á Akranesi og situr einnig í stjórn SUS, Sambandi ungra sjálfstæðismanna.

 

Allir sem hana þekkja vita að hún er verðugur fulltrúi okkar á þing, hún er mjög ljúf, en samt sem áður hörð í horn að taka, hún setur hagsmuni kjördæmisins í 1. sæti og veit betur en flestir hvers ungt fólk í kjördæminu þarfnast. Hún hefur brennandi áhuga á pólitík og fylgist með því sem er að gerast í þjóðfélaginu á hverjum tíma.

 

Við í Sjálfstæðisflokknum höfum þurft að berjast við það undanfarið að ungt fólk segist ekki aðhyllast sjálfstæðisstefnuna því þau telja hana ekki henta ungu fólki og færist aldursflokkurinn 18-35 ára meira og meira til vinstri.

Til þess að sporna við þessari þróun er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa ungt fólk á listanum. Ungt fólk kýs annað ungt fólk sem er á sama stað og það í lífinu og hefur sömu hagsmunamál. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur að hafa framboðslista sem endurspeglar kjördæmið.

 

Ég tel hagsmunum mínum og Sjálfstæðisflokksins í heild sinni betur borgið með Þórdísi Kolbrúnu á lista fyrir alþingiskosningarnar í vor, hún er vel til þess fallin að afla fylgis við flokkinn og því hvet ég alla sem hafa kosningarétt og mega kjósa í prófkjörinu til þess að mæta á laugardaginn og setja Þórdísi Kolbrúnu í 5. sætið, það ætla ég allavega að gera.

 

Íris Bjarnadóttir

Akranesi

 

(Höfundur er stjórnarliður Þórs,  félags ungra sjálfstæðismanna Akranesi)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir