Unglingsstúlkur austan Vatna gróðursettu 120 plöntur
Nú á haustdögum fékk unglingastig Grunnskólans austan Vatna úthlutað 120 plöntum úr Yrkju – sjóði æskunnar til ræktunar landsis. Búið var að finna plöntunum stað og hlutverk á Neistasvæðinu (íþróttasvæðinu) á Hofsósi sem skjól fyrir norðvestanáttinni.
Í frétt á vef skólans segir að þann 13. október fóru stelpurnar í 8. bekk í blíðskaparveðri og gróðursettu af mikilli natni. Framtakið vakti mikla lukku nærstaddra en Sigurmon Þórðarson,umsjónarmaður svæðisins, tók út verkið og gaf bæði vinnubrögðum og starfsanda sín bestu meðmæli.
Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins er sjóður sem úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna. Sjóðurinn hefur eigin stjórn, en Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum.
P.S. Fréttin hefur verið lagfærð. Áður sagði að plantað hefði verið við Hlíðarhús í Óslandshlíð en það var rangt. Beðist er velvirðingar á því.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.