Unglingalandsmótið til Sauðárkróks
Stjórn Ungmennafélags Íslands tók þá ákvörðun á fundi sínum nú síðdegis að 12. Unglingalandsmót UMFÍ í sumar væri fram á Sauðárkróki dagana 31. júlí til 2.
Sex staðir lýstu yfir áhuga að fá mótið eftir að fyrir lá ósk frá Héraðssambandi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, HSH, um frestun á framkvæmd mótsins í sumar til ársins 2010. Í kjölfarið ákvað stjórn UMFÍ að leita til sambandsaðila UMFÍ og þeim gefinn kostur á að taka að sér framkvæmd Unglingalandsmótsins í sumar.
Þeir aðilar sem óskuðu eftir að fá mótið í sumar auk Sauðárkróks voru eftirtaldir. Héraðssambandið Skarphéðinn, Þorlákshöfn, Héraðssamband Þingeyinga, Laugar í S-Þingeyjarsýslu, Ungmennasamband Borgarfjarðar, Borgarnes, Ungmenna- og Íþróttasamband Austurlands, Egilsstaðir og Ungmennasamband Vestur-Skaftafellsýslu með Vík í Mýrdal sem mótsstað. Á þessum stöðum hafa ýmist Landsmót og Unglingalandsmót verið haldin áður. Fyrsta flokks aðstaða er fyrir á fyrrgreindum stöðum.
Þess má geta að árið 2004 voru bæði Landsmót og Unglingalandsmót haldin á Sauðárkróki.
,,Þetta var erfitt enda voru sex aðilar að sækja um að halda mótið. Það urðu um þetta miklar umræður innan stjórnar en hún komst að lokum að samkomulagi. Heimamenn á Sauðárkróki eru svo sannarlega í stakk búnir að halda mótið enda frábærar aðstæður þar fyrir hendi. Ég hefði líka treyst öllum hinum en þetta var niðurstaða stjórnarinnar og ég vil þakka Sauðkræklingum fyrir að hlaupa í skarðið og taka mótið að sér. Ég er mjög bjartsýn á það að við höldum glæsilegt unglingalandsmót á Sauðárkróki í sumar,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ eftir fund stjórnar UMFÍ.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.