Umhverfisverðlaun Skagafjarðar 2020 afhent
Meðlimir úr Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar afhentu á dögunum umhverfisverðlaun Skagafjarðar, 16. árið í röð, en komin er hefð fyrir því að farið sé í skoðunarferðir um Skagafjörð á sumrin til að meta bæi, hverfi og svæði í firðinum fyrir umhverfisverðlaunin, sem er samvinnuverkefni klúbbsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Á heimasíðu sveitarfélagsins er sagt frá veitingu viðurkenninganna og kemur fram að að mati loknu hafi verið valið úr hópi tilnefninga í samráði við garðyrkjustjóra sveitarfélagsins. Í ár voru veitt sex verðlaun í fimm flokkum og hafa því verið veittar 100 viðurkenningar þau 16 ár sem verkefnið hefur lifað. Viðurkenningarflokkarnir sem koma til greina eru sjö talsins, en ekki er alltaf veitt verðlaun í öllum flokkum á sama ári.
Tvenn verðlaun voru veitt í flokknum lóð í þéttbýli:
Dalatún 1, Sauðárkróki, í eigu Steinunnar Huldu Hjálmarsdóttur og Halldórs Hlíðars Kjartanssonar.
Raftahlíð 29, Sauðárkróki í eigu Herdísar Klausen og Árna Stefánssonar.
Verðlaun fyrir snyrtilegustu götuna hlutu íbúar Furulundar í Varmahlíð.
Lóð við opinbera stofnun sem hlaut verðlaun í ár er Slökkvistöðin á Sauðárkróki.
Verðlaun fyrir snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis hlaut Kjarninn á Sauðárkróki.
Að lokum voru veitt verðlaun fyrir einstakt framtak en þau komu í hlut Svanhildar Guðjónsdóttur og fjölskyldu fyrir vatnspóstinn á Hofsósi sem vígður var í sumar. „Vatnspósturinn er gjöf frá Svanhildi og fjölskyldu og er til minningar um eiginmann Svanhildar, Friðbjörn Þórhallsson. Minnisvarðinn er mikil prýði og stendur við sundlaugina á Hofsósi, rétt fyrir ofan Staðarbjargavík þar sem spor Friðbjörns gjarnan lágu eins og segir á vatnspóstinum.“
Sveitarfélagið Skagafjörður og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar óska öllum verðlaunahöfum til hamingju og þakka þeim fyrir að láta umhverfið skipta sig máli. Feykir tekur heilshugar undir þær kveðjur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.