Öxnadalsheiði og Siglufjarðarvegur lokaðir
Leiðindaveður er víða um land á þessum mánudegi og þannig er gul veðurviðvörun á Norðurlandi vestra og er reiknað með að henni verði aflétt undir kvöldmatarleytið í dag. Hvasst er á Skaga og nyrst á Tröllaskaga og reiknað er með auknum vindi í nágrenni Blönduóss. Vegir úr Skagafirði yfir í Eyjafjörð eru lokaðir sem stendur. Appelsínugul viðvörun er sem stendur á Auaturlandi og þar hafa nokkur hús á Seyðisfirði og í Neskaupstað verið rýmd.
Öxnadalsheiðin er lokuð vegna óveðurs og þá hefur veginum úr Fljótum og til Siglufjarðar verið lokað vegna snjóflóðahættu. Austan Tröllaskaga er nokkuð vindasamt og snjókomu eða éljagangi í allan dag en vestan Tröllaskagans er ekki útlit fyrir snjókomu eða éljagang í dag samkvæmt spá Veðurstofunnar.
Á umferðarkorti Vegagerðarinnar má þó sjá að snjókoma er á vegi 76, Siglufjarðarvegi vestast á Tröllaskaga, éljagangur er á Þverárfjallsvegi og ökumenn mega eiga von á skafrenningi á vegum í Húnavatnssýslum; við Gauksmýri og á Vatnsskarði til að mynda. Víðast hvar er hálka á vegum en snjór eða krap á Þverárfjallsvegi.
Frá þriðjudegi og fram á fimmtudag er spáð skaplegu veðri á svæðinu, yfirleitt björtu og stilltu og nokkru frosti en þó ekki fimbilkulda.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.